Munum þurfa nýtt bóluefni á 1 til 3 ára fresti

Björn Rún­ar Lúðvíks­son, yf­ir­lækn­ir ónæm­is­fræðideild­ar Land­spít­al­ans og pró­fess­or í ónæm­is­fræði.
Björn Rún­ar Lúðvíks­son, yf­ir­lækn­ir ónæm­is­fræðideild­ar Land­spít­al­ans og pró­fess­or í ónæm­is­fræði. mbl.is/Ásdís

„Meðan að heimsbyggðin er óbólusett fyrir Delta-afbrigði veirunnar þá heldur þessi veira áfram að fjölga sér, breyta sér og finna sér leiðir til þess að koma nýjum afbrigðum að. Á meðan við erum í þeim raunveruleika þá þurfum við líklega að fá nýtt bóluefni á eins til þriggja ára fresti við því afbrigði sem geisar þá yfir,“ segir Björn Rún­ar Lúðvíks­son, yf­ir­lækn­ir ónæm­is­fræðideild­ar Land­spít­al­ans og pró­fess­or í ónæm­is­fræði, segir í samtali við mbl.is 

Um 33% heimsbyggðarinnar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni og um 25% eru fullbólusett, samkvæmt tölum frá Our world in data. Þá hafa einungis um 1,4% íbúa fátækari þjóða fengið einn skammt af bóluefni.

„Covid-19 er af sömu fjölskyldu og inflúensan svo það ætti ekki að koma neinum á óvart að hún mun líklega haga sér líkt og sú veiki,“ segir Björn Rúnar og nefnir að inflúensan sé vel þekkt fyrir að breyta sér stanslaust.

Mun samfélagið þurfa að búa við takmarkanir um ókomna tíð?

„Nei, það þarf að fara að finna annan takt í því. Það þarf að eiga sér upplýst umræða um það að fólk geri sér grein fyrir þeim annmörkum og áhættum sem fylgir veirunni,“ segir Björn Rúnar og nefnir að fyrir bólusetta séu líkurnar á því að veikjast litlar en eru samt til staðar.

Vonast eftir lyfi við Delta í lok árs

Nú standa yfir rannsóknir á 99 lyfjum gegn Covid-19 víðsvegar um heiminn, af þeim eru 33 á síðasta stigi áður en þau hljóta markaðsleyfi. Björn Rúnar telur að þróun á nýjum bóluefnum gegn veirunni muni halda áfram um ókomna tíð.

„Það er gífurlega mikil framþróun í gangi. Nú eru að koma ný bóluefni á markaðinn með öðruvísi virkni og annars konar uppbyggingu,“ segir Björn Rúnar og nefnir að með nýjum afbrigðum af veirunni sé stöðugt verið að þróa lyf til þess að takast á við þau.

Björn nefnir sérstaklega nýtt bóluefni sem Pfizer er að þróa. „Það efni er fyrst og fremst hugsað með Delta-afbrigðið í huga og bíður þess að komast í lyfjaprófun. Ég held að sá ferill ætti ekki að taka nema örfáa mánuði, jafnvel ekki nema einn eða tvo.“

Hann segist því í bjartsýni vona að bóluefni gegn Delta-afbrigðinu verði komið hingað til lands í lok árs. 

Frétt á vef The New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert