57% barna bólusett en öll hafa fengið boð

Bólusetning barna í Laugardalshöll lauk í gær.
Bólusetning barna í Laugardalshöll lauk í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 57% barna á aldrinum 12 til 15 ára hafa fengið bóluefni gegn Covid-19 en allir í þeim aldurshópi hafa nú fengið boð í bólusetningu. Bólusetningu barna á Suðurnesjum lauk í dag en bólusetningu barna á höfuðborgarsvæðinu í Laugardalshöll lauk í gær.

71% allra landsmanna eru nú fullbólusett en 84% landsmanna 12 ára og eldri fullbólusett. Börn sem eru undir 12 ára aldri hafa almennt ekki fengið boð í bólusetningu enda hefur markaðsleyfi fyrir bóluefni einungis verið gefið út fyrir börn og fullorðna sem hafa náð 12 ára aldri.

Alls hafa um hálf milljón skammtar verið gefnir, þar af um 36 þúsund örvunarskammtar.

mbl.is