Leyfa nöfnin Bond og Apollo

Nú er heimilt að breyta nafninu sínu í Svarthöfði Bond.
Nú er heimilt að breyta nafninu sínu í Svarthöfði Bond. mbl.is/Eggert

Mannanafnanefnd hefur heimilað notkun eiginnafnsins Bond en féllst aftur á móti ekki á að heimila eiginnafnið Gunnarsson í nýlegum úrskurðum nefndarinnar. 

Kvenkynsnafnið Kvika var samþykkt en nafnið Apollo var samþykkt sem karlkynsnafn. Apollo var samþykkt þar sem það tekur íslenskri eignarfallsendingu. Þó ritháttur nafnsins samræmist ekki algjörlega almennum ritreglum íslensks máls tíðkaðist umritunin Apollo í ensku og fleiri málum og því var nafnið samþykkt .

Eiginnafnið Gunnarsson var ekki fært inn á mannanafnaskrá í ljósi þess að Gunnarsson er kenninafn. Ekkert skýrt bann er í lögunum við því að nota föður- eða móðurnafn sem eiginnafn en í ljósi samhengi mannanafnalaga og forsögu þeirra var ályktað að slíkt gegni gegn tilgangi nefndarinnar og laganna.

Kvenkynsnafnið May var einnig samþykkt sem fallbeygist sem Mayar í eignarfalli. Þá var talið að rithátturinn May hefði unnið sér inn hefð þar sem fimm konur bera nafnið í Þjóðskrá, sú elsta fædd 1950.

Svarthöfði var einnig fært inn á mannanafnaskrá og var ekki talið þess eðlis að það geti orðið nafnbera til ama samkvæmt fjórða tölulið fimmtu greinar laga um mannanöfn. 

Beiðni um millinafnið Welding var hins vegar hafnað með vísan til þess að nafnið sé þegar ættarnafn og ekki dregið af íslenskum orðstofnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert