Búast má við álagi vegna framkvæmda

Frá Fossvogsskóla í Reykjavík.
Frá Fossvogsskóla í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flutningur og uppsetning einingahúsa sem nýta á fyrir kennslu 1.- 4. bekkjar í Fossvogsskóla hefst samkvæmt áætlun á morgun. Búast má við álagi í hverfinu næstu viku á meðan flutningi stendur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Þar segir að hafist verði handa við flutning og uppsetningu kennslueininganna í fyrramálið, föstudaginn 27. ágúst, og megi búast við umferð stórra flutningabíla í nágrenni skólans næstu viku á milli klukkan 9 og 13.

Í einingahúsunum verða fimm kennslustofur, gangar með aðstöðu fyrir útiföt, …
Í einingahúsunum verða fimm kennslustofur, gangar með aðstöðu fyrir útiföt, salerni, sem og aðstaða fyrir kennara og annað starfsfólk. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Tekið er fram að öryggisstjóri muni vera á vinnusvæðinu á álagstímum og fyrirkomulag flutnings verði skipulagt til að valda sem minnstu raski fyrir nemendur og starfsmenn skólans. 

„Í einingahúsunum verða fimm kennslustofur, gangar með aðstöðu fyrir útiföt, salerni, sem og aðstaða fyrir kennara og annað starfsfólk. Teymi frá framleiðanda húsanna mun, ásamt þjónustuverktökum vinna með starfsfólki Reykjavíkurborgar við uppsetninguna til að tryggja að hún fari fram hratt og örugglega. Þegar hafa verið lagðar lagnir og unnið að undirbúningi lóðarinnar. Einnig er búið að ráða verktaka til að vinna við innréttingar og allan annan frágang. 

Gert er ráð fyrir að kennslueiningarnar verði tilbúnar til notkunar um miðjan september og munu nemendur sem nú sækja skóla í húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut þá flytjast aftur heim í Fossvogsdal,“ segir ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert