Hraðpróf hjálpi „augljóslega“ til við að opna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Augljóst er að hraðpróf geti verið forsenda rýmri samkomutakmarkana hér á landi og að þau hjálpi til við að opna samfélagið eins mikið og kostur er á. 

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Framkvæmdin liggur ekki fyrir

Það sem liggur fyrir, með reglugerð sem tekur gildi á laugardag, er að hraðpróf verði notuð í samráði við viðburðarhaldara á borð við Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og ÍSÍ, til þess að leyfa allt að 500 manns að koma saman. 

Það sem liggur hins vegar ekki fyrir er hvernig framkvæmd þess verður háttað, hvað hún muni kosta og hver greiði fyrir hana. Svandís segir það þó vera í vinnslu. 

„Við erum bara ekki komin til botns í þessu,“ segir hún. 

„Það eru fjölmargar spurningar sem þarf að svara; í fyrsta lagi varðandi innkaupin, í öðru lagi varðandi framkvæmdina og í þriðja lagi varðandi greiðsluþátttökuna. Meginmarkmið stjórnvalda með notkun hraðprófa er að opna bara eins mikið og við getum.“

Hraðpróf nú þegar í notkun

Svandís segir að hraðpróf megi nota við fleiri tilefni en þegar halda á stóra viðburði. Þannig eru hraðpróf nú þegar notuð t.a.m. í þjónustu við ferðamenn og á fyrsta og fjórða degi svokallaðrar smitgátar.

„Notkun þessara prófa eru því að aukast má segja dag frá degi, bæði almennt eins og maður sér þegar fólk notar þetta við skipulagningu brúðkaupa eða stórafmæla og svo framvegis, en líka með stjórnvaldsákvörðunum eða ákvörðunum um eitthvað regluverk þar sem hraðpróf eru svona þáttur af þeirri mynd,“ segir Svandís. 

Umrædd framkvæmd stjórnvalda er lýtur að hraðprófum, þá í samráði við stóra viðburðarhaldara, mun ekki hefjast strax á laugardaginn þegar ný reglugerð tekur gildi. Hins vegar er í algjörum forgangi, eins og fyrr segir, að koma framkvæmdinni til leiðar. Svandís segir að samtal við viðburðarhaldara um útfærslu hraðprófana hefjist þegar í stað.

„Ég fer bara beint í þetta þegar ég sest við skrifborðið hjá mér á eftir,“ segir Svandís. 

mbl.is