Óverulegar breytingar en sósíalistar sækja á

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Brynjar Gauti

Samkvæmt nýrri könnun MMR á afstöðu fólks til framboða í komandi alþingiskosningum eru óverulegar breytingar á fylgi flestra framboða frá fyrri könnunum. Það er helst að Sósíalistaflokkurinn virðist sækja í sig veðrið á kostnað annarra vinstriflokka.

Könnunin, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is, var gerð dagana 18.-24. ágúst og tóku 932 þátt í henni, en 772 tóku afstöðu til framboða í kosningunum.

Níu flokkar og mjótt á munum

Þegar niðurstaðan er reiknuð í þingsæti samkvæmt reglum landskjörstjórnar ná sömu níu flokkar inn á þing og í fyrri könnunum. Rétt er þó að ítreka að vegna þessa fjölda framboða eru iðulega fá svör að baki fylgishlutfalli, sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum. Fyrir vikið geta vikmörkin verið mjög há og rétt að taka forspárgildi nákvæmra þingsætaútreikninga með varúð. Sömuleiðis þarf sáralitla breytingu til þess að flokkar skiptist á þingsætum, sem þá færast einatt um kjördæmi vegna jöfnunarsæta. Af þeim sökum ber að líta á væntanlegt þingmannatal hér að ofan sem samkvæmisleik fremur en kosningaspá.

Sem fyrr er Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur, þó fylgi hans sé töluvert undir kjörfylgi í síðustu kosningum. Hann nýtur einnig stærðarinnar við úthlutun þingsæta og er með meira en helmingi fleiri þingsæti en Framsóknarflokkurinn, næsti flokkur á eftir.

Þó breytingar á fylgi séu í flestum tilvikum litlar frá fyrri könnunum, þá er Sósíalistaflokkurinn undantekning þar á. Samkvæmt könnuninni fengi hann 8,7% fylgi og fimm þingsæti í fimm kjördæmum, fjögur þeirra kjördæmakjörin.

Þingmenn kjördæma samkvæmt skoðanakönnun MMR.
Þingmenn kjördæma samkvæmt skoðanakönnun MMR. Mynd/mbl.is

Foringjar í fallhættu

Miðað við þessa útkomu eru báðir framsóknarráðherrarnir í Reykjavík inni á þingi, Lilja Alfreðsdóttir þó mjög naumlega. Á hinn bóginn næði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, ekki inn á þing fyrir Suður-Reykjavík en hamborgarakóngurinn Tómas A. Tómasson slyppi inn í jöfnunarsæti í Norður-Reykjavík.

Stjórnin á brúninni

Yrðu ofangreindar niðurstöður kosningaúrslit blasir við að ríkisstjórnin væri í bráðri fallhættu. Samanlagt næðu stjórnarflokkarnir 47,3% fylgi og 32 þingmönnum. Í könnun MMR var einnig spurt um stuðning við ríkisstjórnina og það kann að vera til marks um þrengri stöðu hennar, að aðeins 49,1% segist styðja hana en 50,9% ekki.

Tæplega mun þó reynast auðvelt að mynda aðra ríkisstjórn miðað við þessi úrslit. Hún gæti ekki verið færri en fjögurra flokka og án Sjálfstæðisflokks ekki færri en fimm flokka.

Þá er hins vegar rétt að hafa í huga að við þennan hóflega uppgang sósíalista hafa aðrir vinstriflokkar gefið eftir, en það á ekki við á miðju og til hægri. Það kann því að opna á aðra möguleika við stjórnarmyndun en til þessa hafa þótt líklegastir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »