Afhentu ráðherra gjöf og óskuðu eftir fundi

Forsvarsmenn aðgerðahópsins „aðför að heilsu kvenna“ áttu stutt erindi við …
Forsvarsmenn aðgerðahópsins „aðför að heilsu kvenna“ áttu stutt erindi við Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra í dag í anddyri heilbrigðisráðuneytisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsvarsmenn aðgerðahópsins „aðför að heilsu kvenna“ áttu stutt spjall við Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra í dag í anddyri heilbrigðisráðuneytisins. Þar afhentu þær ráðherra gjöf og óskuðu eftir því að fá fund sem fyrst til þess að fara yfir stöðu skimana á leghálskrabbameini.

„Við gáfum heilbrigðisráðherra penna, í plasti til að undirstrika gagnsæi, með rauðum borða til að undirstrika rauða þráðinn í öllu samhenginu og með þessum penna vonumst við til að hún skrifi undir ráðningasamninga við fólk sem á að vinna þessi störf hér á landi og segi upp þessum samningi við Danina í kjölfarið,“ segir Erna Bjarnadóttir, ein af forsvarsmönnum hópsins. 

Ásamt gjöfinni afhentu þær ráðherra nýtt bréf þar sem þær ítreka að konur eiga að vera með í ráðum í þessum málum og telja að þær hafi hingað til verið skildar útundan.

„Við teljum að brotið hafi verið á trausti kvenna og það þurfi að endurheimta traust til þjónustunnar og að konur séu hafðar með í ráðum, á þær verði hlustað og breytingarnar vel kynntar. Það er engin skimun án kvenna. Þess vegna erum við að óska eftir fundi til þess að vinna þetta mál áfram því við viljum sjá lausnir.“

Ekki náðist tali á heilbrigðisráðherra að erindinu loknu.

Ásamt gjöfinni afhentu þær ráðherra nýtt bréf þar sem þær …
Ásamt gjöfinni afhentu þær ráðherra nýtt bréf þar sem þær ítreka að konur eiga að vera með í ráðum í þessum málum og telja að þær hafi verið skildar útundan. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Verða að gera betur og viðurkenna sín mistök“

„Það vantar upplýsingar til kvennanna um hvaða breytingar voru gerðar á sínum tíma, hvað þær þýddu og af hverju konur eiga að treysta því,“ segir Erna

„Ráðherra lýsti því hérna sjálf áðan að hún vilji ekki flytja þetta heim fyrr en þetta sé allt öruggt, af hverju flutti hún þetta út áður en það var allt tryggt?“

Erna segir að samkvæmt svari heilbrigðisráðuneytisins sé „enn og aftur verið að kasta einhverju á Krabbameinsfélagið, að það hafi ekki staðið sig nógu vel og þetta og hitt“. 

„Einhver skýrsla frá Landlækni sem kemur í febrúar er sögð ástæða þess að þessi samningur var gerður var gerður við Hvidovre, þetta eru náttúrulega óásættanlegar skýringar og þau verða að gera betur og viðurkenna sín mistök.“

Þær Erna Bjarnadóttir, Rut Ríkey Tryggvadóttir og Lísa Ann Hartranft …
Þær Erna Bjarnadóttir, Rut Ríkey Tryggvadóttir og Lísa Ann Hartranft áttu stutt stutt spjall við heilbrigðisráðherra fyrir hönd aðgerðahópsins.

Segjast bjartsýnar á fund með ráðherra

„Við erum mjög bjartsýnar að eðlisfari annars værum við ekki hérna en við viljum ekki að það sé leitað að sökudólgi heldur viljum við sjá lausnir og við viljum sjá lausnirnar framkvæmast núna, það er ekki eftir neinu að bíða,“ segir Rut Ríkey.

Hún segir staðreyndirnar vera þekktar fyrir, það sé vitað hve margar konur búa í landinu og þurfi á þessari þjónustu að halda. Skimanirnar hafa verið framkvæmdar og unnar hér á landi í um sextíu ár, með góðum árangri og að undarlegt þyki að nú sé farið að tala um einhvern gæðabrest af hálfu Krabbameinsfélagsins.

„Það sem hefur verið vel gert í áratugi á ekki að þurfa að breyta breytinganna vegna,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert