„Hann dúndraði út um allt í um hálftíma“

Hús Þrastar.
Hús Þrastar. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Þröstur Jónsson, bæjarfulltrúi í Múlaþingi og íbúi hússins á móti húsinu í Dalseli þar sem maður var skotinn af lögreglu á Egilsstöðum í gærkvöldi, segist hafa orðið var við marga skothvelli þegar maðurinn gekk berserksgang með skotvopn í gærkvöldi. 

„Hann dúndraði út um allt í um hálftíma,“ segir Þröstur sem var á leið sinni í áfallahjálp hjá presti þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum. 

Þröstur Jónsson, íbúi í Dalseli á Egilsstöðum.
Þröstur Jónsson, íbúi í Dalseli á Egilsstöðum. Ljósmynd/mbl.is

Tuttugu högl í rúðum 

Þröstur sagði frá upplifun sinni af gærkvöldinu á facebook-síðu sinni þar sem hann þakkar fyrir að hafa ekki orðið fyrir árásinni. 

„Skildi ekkert hvað var í gangi og fór út þar sem byssumaðurinn dritaði kúlum og haglaskotum um allt. Sá ekki alveg hvað hann var að gera í myrkrinu en eitthvað sagði mér að fara inn strax aftur.

Ég átta mig nú á því að hann var að hlaða haglabyssuna þegar ég er úti.

Þvílíkt lán. Þori ekki að hugsa hvað hefði gerst hefði hann verið með hana hlaðna þegar ég kom út á stétt,“ segir í færslu Þrastar sem telur um tuttugu högl í glugganum hjá sér og meira til í veggjum hússins síns.

Þröstur segist hafa orðið vitni af því þegar lögregla skaut manninn. Hún hafi ekki haft margra kosta völ í stöðunni. 

Húsið sem byssumaðurinn var í.
Húsið sem byssumaðurinn var í. Ljóamynd/Gunnar Gunnarsson

Með haglabyssu og rifil

„Hann er með tvö vopn eftir því sem ég sé. Mér sýndist hann vera með haglabyssu og tuttugu og tveggja kalíbera riffil. Ég áttaði mig ekki einu sinni strax á því að hann væri að skjóta en ef ég skil þetta rétt þá fór hann inn í húsið á móti mér og skaut þar allt í sundur inni,“ segir Þröstur. 

„Hann var þarna í hálftíma og var að skjóta alveg stanslaust, hvert skotin fóru veit ég ekki. Það fór eitthvað í húsið hjá mér og allar rúður eru í sundur í því.“

Þröstur segir að íbúar í götunni séu miður sín yfir málinu. „Þetta er ekki bara fullorðið fólk, hér eru börn líka og fólk er alveg miður sín.“

„Ég er gapandi hissa yfir hvað lögreglan hér fyrir austan er vel búin og vel þjálfuð. Ég fylgdist með þessu út um eldhúsgluggann og það var fagleg vinna þarna.“ 

Dyr hússins þar sem byssumaðurinn var skotinn.
Dyr hússins þar sem byssumaðurinn var skotinn. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Varðstu vitni að því þegar maðurinn var skotinn?

„Já, ég varð vitni af því. Ég held að sá sem það gerði hafi verið að gera réttan hlut. Það var myrkur og ég sá lögreglumanninn en ekki byssumanninn. Hann beindi byssuni að honum, sem virtist vera lítil skammbyssa. Lögreglumaðurinn skipar honum að leggja niður vopn, gerir það þrisvar, en hinn lætur ekki segjast. 

Svo gerist eitthvað, því að ég sé að lögreglumaðurinn kippist eitthvað við og lætur síðan vaða.“ 

Þröstur segir fólk enn vera að átta sig á að atburðir gærkvöldsins hafi raunverulega gerst. 

„Það er svo út úr kortinu, að svona geti gerst, á svona stað þar sem friðsæld ríkir alltaf,“ segir Þröstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert