Telur ráðuneytið fara með alvarlegar rangfærslur

Krabbameinsfélagið hefur sent frá sér yfirlýsingu með leiðréttingum og athugasemdum.
Krabbameinsfélagið hefur sent frá sér yfirlýsingu með leiðréttingum og athugasemdum.

Krabbameinsfélag Íslands telur að bréf sem heilbrigðisráðuneytisins sendi til aðgerðahóps­ins „aðför að heilsu kvenna“ innihaldi alvarlegar rangfærslur og eftiráskýringar í bréfinu.

„Aðför að heilsu kvenna“ varð til í byrj­un júlí er nokkr­ar kon­ur tóku sig sam­an til að reyna að fylgja því eft­ir að fram­kvæmd­um á skimun­un­um yrði bætt og komið til móts við not­end­ur þjón­ust­unn­ar með styttri biðtíma og skýr­ari leiðbein­ing­um varðandi niður­stöður.

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu eru sérstaklega teknar fyrir þrjár færslur úr bréfi ráðuneytisins sem barst aðgerðarhópnum 25. ágúst.

Faglegt mat á gæðum lá ekki fyrir

Í bréfi ráðuneytisins var gefin sú skýr­ing á stöðunni að sam­kæmt skýrslu frá embætti land­lækn­is hafi verið al­var­leg gæðavanda­mál hjá Krabba­meins­fé­lagi Íslands sem hafi orðið til þess vald­andi að samið hafi verið við rann­sókna­stof­una í Hvidovre. 

„Þegar ákvörðun um að flytja rannsóknir á leghálssýnum til Hvidovre-sjúkrahússins í Danmörku lá ekkert faglegt mat á gæðum rannsóknarstofu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins fyrir,“ segir í tilkynningu Krabbameinsfélagsins.

Ákvörðunin byggðist ekki á úttekt

Þá segir félagið frá því að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi tekið við leghálsskimunum þann 1. janúar 2021 og samið við rannsóknarstofu Hvidovre-sjúkrahússins um rannsóknirnar.

„Niðurstöður hlutaúttektar embættis landlæknis á Leitarstöð KÍ voru hins vegar birtar tveimur mánuðum síðar þann 24. febrúar 2021 og því ómögulegt að ákvörðunin byggði á úttektinni.“

Útblásin túlkun

Krabbameinsfélagið telur að í bréfinu sé sett fram órökstudd staðhæfing, sem sé í ósamræmi við niðurstöður hlutaúttektar Embættis landlæknis.

„Staðhæft er að alvarleg gæðavandamál hafi verið hjá Leitarstöð en niðurstöður embættis landlæknis voru „…einkum þær að ákveðna hluta innra gæðaeftirlits hefði verið hægt að nýta betur til að hafa yfirsýn á gæði frumugreininga í heild”. Orðalagið í bréfinu er óneitanlega útblásin túlkun á þeim niðurstöðum.“

Engar athugasemdir gerðar við gæðamál Leitarstöðvar

„Að auki skal nefnt að ákvörðun um flutning krabbameinsskimana frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til opinberra stofnana var tekin í upphafi árs 2019, m.a. með þeim rökum að með því færðist skipulag skimana nær því sem gerist í öðrum löndum,“ segir í tilkynningu Krabbameinsfélagsins.

Þá segir að engar athugasemdir voru gerðar við gæðamál Leitarstöðvar. 

Yfirlækni Leitarstöðvarinnar og ábyrgðarmanns skimunarinnar til loka árs 2020 hefur nú verið falið hlutverk yfirlæknis og forstöðumanns Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Telur Krabbameinsfélagið að sú ráðning fari gegn þeirri staðhæfingu að alvarlegur skortur hafi verið á gæðum í starfi Leitarstöðvar undir hans stjórn. 

„Löngu er tímabært að leggja áherslu á að endurvekja traust kvenna á leghálsskimunum og byggja upp til frambúðar. Krabbameinsfélagið er tilbúið til að leggja því verkefni lið og óskar Heilsugæslunni góðs gengis í þeirri vinnu með traustan mann í brúnni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert