KSÍ fundar aftur í fyrramálið

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundi KSÍ er lokið í dag en fundað verður aftur í fyrramálið klukkan tíu. Þetta staðfestir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við mbl.is. Hún vildi ekki tjá sig nánar um málið eða framvindu fundarins.

Fundarhöld höfðu staðið yfir frá klukkan tólf á hádegi í dag og var fundað um ofbeldismál innan sambandsins í kjölfar fregna Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi er Þór­hild­ur Gyða Arn­ars­dótt­ir greindi frá því að hún hefði orðið fyr­ir of­beldi af hálfu landsliðsmanns á skemmti­stað árið 2017.

Faðir Þór­hild­ar til­kynnti málið til KSÍ hálfu ári síðar sem bauð henni þá á fund þar sem henni bauðst að skrifa und­ir þagn­ar­skyldu­samn­ing gegn miska­bót­um. KSÍ hafn­ar því að lögmaður­inn hafi verið á veg­um sam­bands­ins.

Deg­in­um áður en RÚV birti viðtal sitt við Þórhildi Gyðu hafði Guðni Bergs­son, formaður KSÍ, full­yrt í viðtalsþætt­in­um Kast­ljósi að sam­band­inu hefði aldrei borist form­leg kvört­un vegna kyn­ferðisof­beld­is. Guðni sagði í kvöld­frétt­um í gær að hann hefði misminnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert