Sema Erla dregur hæfi Þorsteins í efa

Sema Erla telur Þorstein ekki hæfan til formennsku í kærunefndinni …
Sema Erla telur Þorstein ekki hæfan til formennsku í kærunefndinni vegna fyrri starfa. Samsett mynd

Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, hjálparsamtaka hælisleitenda á Íslandi, hugnast ekki ráðning Þorsteins Gunnarssonar í embætti formanns kærunefndar útlendingamála. Þorsteinn hafði áður gengt stöðu staðgengils forstjóra Útlendingastofnunar og starfað þar í rúman áratug.

„Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að dómsmálaráðherra hafi gert það. Það hefur verið rekin hér um árabil mjög harkaleg og fólksfjandsamleg stefna hjá Útlendingastofnun sem hann hefur verið í forsvari fyrir,“ segir Sema Erla, sem hefur verið harðorð í garð stofnunarinnar um árabil.

Vísar til ólögmætra aðgerða

Sema telur ráðninguna rýra kærunefndina því trausti sem almenningur eigi að bera til hennar: „Við vitum það að Útlendingastofnun hefur staðið fyrir ólögmætum aðgerðum, dæmi um það er þegar hátt í 20 einstaklingar voru sviptir húsnæði, fæði og heilbrigðisþjónustu, þá er það kærunefndin sem úrskurðar þessar aðgerðir Útlendingastofnunar ólögmætar.

Það er auðvitað eitthvað mjög óeðlilegt við það að maður sem beri ábyrgð á slíkum gjörðum skuli vera settur í embætti þessarar nefndar sem í rauninni á að heita hlutlaus. Það byggir ekki upp traust eða trúverðugleika fyrir þessa nefnd, þvert á móti.“

Unnið hjá Útlendingastofnun frá árinu 2007

Þorsteinn hefur að sögn Semu réttlætt ólögmætar aðgerðir í fjölmiðlum ítrekað. „Ég skil þess vegna ekki hvernig hann sé hæfur til þess að úrskurða um slíkt.“

Þorsteinn útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands 2007 og hóf störf hjá Útlendingastofnun sem lögfræðingur sama ár. Hann hefur starfað sem sviðsstjóri verndarsviðs stofnunarinnar frá árinu 2016 auk þess að vera staðgengill forstjóra stofnunarinnar og settur forstjóri frá október 2019 til 31. mars 2020. Dómsmálaráðherra skipar í embættið til fimm ára í senn.

mbl.is