„Ég mátti ekki segja neitt við hana“

B-2 kjarnasprengjuflugvél í Keflavík.
B-2 kjarnasprengjuflugvél í Keflavík. Ljósmynd/Bandaríski flugherinn

„Þegar þær komu til mátti ekki einu sinni tala um þær, þær voru svo mikið leynd­ar­mál. Þetta var gert í dimm­unni og allt falið. Það þorði eng­inn að minn­ast á þetta því það varðaði fang­elsi. Það er dá­lítið sér­stakt ef maður hugs­ar út í það að þær séu nú að lenda þarna í hóp­um í Kefla­vík,“ seg­ir Sveinn Þórðar­son, fyrsti ís­lenski flug­véla­verk­fræðing­ur­inn, um B-2 sprengju­vél­arn­ar sem lentu í Kefla­vík á mánu­dag. Hann var einn af þeim út­völdu sem komu að hönn­un og smíði þess­ara véla.

Flug­vél­arn­ar eru af gerðinni Nort­hrop Grumman B-2 og eru þær meðal ann­ars merki­leg­ar fyr­ir þær sak­ir að vera dýr­ustu flug­vél­ar sög­unn­ar en ein slík kost­ar rúm­lega 90 millj­arða króna. Vél­arn­ar eru sér­stak­lega hannaðar til að bera kjarna­vopn en ein­ung­is 21 ein­tak hef­ur verið fram­leitt í heim­in­um og eru þau öll í eigu banda­ríska flug­hers­ins. Hef­ur far­kost­ur­inn meðal ann­ars hlotið viður­nefnið Sprengjuflug­vél allra tíma.

Flug­véla­fram­leiðand­inn Nort­hrop í Banda­ríkj­un­um sá um hönn­un og smíði vél­ar­inn­ar í mik­illi sam­vinnu við flug­her­inn. Vann Sveinn hjá fyr­ir­tæk­inu sem deild­ar­stjóri hönn­un­ar­deild­ar og fékkst hann meðal ann­ars við út­reikn­inga á burðarþoli, loft­mót­stöðu og öðru er viðkem­ur hönn­un og ný­smíði flug­véla.

Sveinn Þórðar­son og Sig­ríður Lúth­ers­dótt­ir, eig­in­kona hans, fluttu upp­haf­lega til …
Sveinn Þórðar­son og Sig­ríður Lúth­ers­dótt­ir, eig­in­kona hans, fluttu upp­haf­lega til Banda­ríkj­anna árið 1953 og búa nú í Suður-Kali­forn­íu. mbl.is

„Þetta var merki­legt og óvana­legt að lenda í svona. Þetta var leyni­leg flug­vél sem átti að nota í leyni­legu starfi. Þetta var gert í eyðimörk­inni í Kali­forn­íu, það vissi eng­inn um þetta og fólk veit voða lítið enn þá þó hún sé að lenda í Kefla­vík. Kon­an mín mátti ekki einu sinni vita að ég var að vinna að þessu tæki á sín­um tíma. Ég mátti ekki segja neitt við hana. Hún vissi að ég fór í vinn­una og var að vinna að ein­hverri flug­vél en það var það eina. Hún frétti það svo tveim­ur árum seinna við að lesa blöðin. Þá hafði birst ein­hver blaðaf­rétt og hún hafði áhuga á að vita hvort ég vissi eitt­hvað um þetta,“ seg­ir hann og hlær við.

Að sögn Sveins var vél­in voða merki­leg og sér­stæð, og var smíðin og hönn­un­in afar óvana­leg í heild. Þeir sem hafa séð vél­ina vita að út­lit henn­ar er afar ein­kenn­andi og hef­ur henni meðal ann­ars verið lýst sem „hinum fljúg­andi væng“. Kom Sveinn að smíði skrokks­ins og vængj­anna en gerð vél­ar­inn­ar var risa­vaxið verk­efni sem hundruð ein­stak­linga tóku þátt í og stóð fram­kvæmd­in yfir í nokk­ur ár. „Frá því að hug­mynd­in kom fram og þar til hún fór að fljúga liðu um fjög­ur ár. Þetta tek­ur tíma. Þetta eru ekki bara flug­vél­ar held­ur er líka vopna­kerfi og annað sem þarf að vinna á sama tíma. Ég hef ekki hug­mynd um hvað það unnu marg­ir að þessu verk­efni en allt í allt hafa þetta verið nokkuð hundruð manns. Allt kerfið er svo stórt.“

Sinnti herskyldu erlendis

Sveinn flutti út til Banda­ríkj­anna ásamt konu sinni Sig­ríði Lúth­ers­dótt­ur árið 1953 til að leggja stund á nám í þotu­viðgerðum, fyrst­ur Íslend­inga. Hafði hann á þeim tíma ekki lokið gagn­fræðaskóla en það virt­ist ekki koma að sök. Árið 1954 gekk Sveinn í raðir banda­ríska flug­hers­ins og hlaut hann inn­göngu í há­skóla flug­hers­ins í Texas og lærði þar flug­virkj­un. Leið ekki á löngu þar til hann var far­inn að kenna viðhald á or­ustuþotum flug­hers­ins. „Þegar ég kom út varð ég að fara í fjög­ur ár í flug­her­inn, það var skylda þá. Ég veit ekki um neinn Íslend­ing sem hef­ur sinnt svona her­skyldu en þegar maður er far­inn að vinna fast í land­inu þá losn­ar maður ekki við það.“

Und­ir lok sjötta ára­tug­ar­ins hóf Sveinn frek­ara nám við Kali­forn­íu­há­skóla þar sem hann lagði stund á flug­véla­verk­fræði og út­skrifaðist hann með meist­ara­gráðu í fag­inu árið 1962, fyrst­ur Íslend­inga. Hafði hann ákveðið að snúa aft­ur til Íslands að því loknu en þegar heim var komið blasti við hon­um hálf­gert at­vinnu­leysi. Sneru hjón­in því aft­ur til Banda­ríkj­anna þar sem Sveini bauðst starf hjá Nort­hrop-flug­véla­verk­smiðjun­um í Kali­forn­íu, og hafa þau búið þar síðan.

„Það var mikið betra að vera úti í Banda­ríkj­un­um, sér­stak­lega þegar ég var bú­inn að læra flug­véla­verk­fræðina, það var ekk­ert að gera heima á Íslandi en nóg í Banda­ríkj­un­um. Ég sé ekk­ert eft­ir því en maður er alltaf með ann­an fót­inn á Íslandi.“

Hef­ur hann nú tekið þátt í hönn­un Boeing 747 farþegaþot­unn­ar, or­ustuþotn­anna F-18 og F-5, og ým­issa geim­fara. Auk þess hef­ur hann ferðast víða um heim­inn til að ann­ast viðhald á vél­um Nort­hrop og fór m.a. til Víet­nams á stríðsár­un­um

Viðtalið er ein úrvalsgreina Morgunblaðsins, sem birtast á mbl.is, og finna má hér.

mbl.is