Listapúkinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

Þórir Gunnarsson.
Þórir Gunnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Myndlistamaðurinn Þórir Gunnarsson, einnig þekktur sem Listapúkinn, var útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021 á sérstakri hátíðardagskrá í Listasal Mosfellsbæjar.

Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert. Sólveig Franklínsdóttir, formaður nefndarinnar, veitti Þóri verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni, að því er segir í tilkynningu.

„Þórir Gunnarsson er Mosfellingur í húð og hár. Hann starfar hjá Múlalundi og á Reykjalundi og æfir hjá Aftureldingu auk þess að vera öflugur meðlimur stuðningsklúbbsins Rothöggsins,” segir í tilkynningunni.

„Hann er ötull í list sinni, kappsamur og hugmyndaríkur. Myndir hans spegla oftar en ekki fegurð hversdagsleikans en einnig er hann þekktur fyrir litríkar portrettmyndir sínar af vinum og vandamönnum jafnt sem þjóðþekktum einstaklingum.”

Þórir sýndi í Kaffihúsinu í Álafosskvos árin 2012, 2013, 2014 og 2015, á Blik á bæjarhátíðinni Í túninu heima árið 2018 og samsýningu á vegum Listar án landamæra í Gallerí Gróttu árið 2020.

Á næsta ári er fyrirhuguð sýning á verkum Þóris í Listasal Mosfellsbæjar.

mbl.is