Sammála um að Guðni þyrfti að víkja

Varðandi ákvörðun Guðna um að segja af sér segir Borghildur …
Varðandi ákvörðun Guðna um að segja af sér segir Borghildur að hún hafi verið tekin í kjölfar umræðu innan stjórnarinnar. „Við vorum sammála um að þetta þyrfti að gerast.“ mbl.is/Hari

Stjórn KSÍ var sammála um að Guðni Bergsson þyrfti að víkja sem formaður KSÍ. Þetta segir Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður sambandsins. Hún segir stjórnina ekki geta stungið af frá sökkvandi skipi. Stjórnin gæti þó enn boðað til auka ársþings en ekki er ljóst hvort heimilt sé að kjósa um nýja stjórn á slíkum fundi.

Stjórnin hyggst starfa áfram fram að næsta ársþingi, þegar kosið verður um nýja stjórn, venju samkvæmt. Sá fundur verður haldinn í febrúar. Formaður stjórnarinnar, Guðni Bergsson, steig aftur á móti til hliðar í dag. 

Borghildur segir að ákvörðun stjórnarinnar um að sitja áfram hafi verið tekin eftir gríðarlega miklar umræður fram og til baka og íhugun stjórnarmanna um hvað væri það besta í stöðunni. 

Geta ekki skilið sambandið eftir óstarfhæft

Á ársþinginu í febrúar verður öll stjórnin undir en Borghildur segist ekki vita hve margir ætli sér að bjóða sig aftur fram. „Við erum bara að kljúfa okkur í gegnum daginn eins og er.

Við getum ekki skilið sambandið eftir óstarfhæft og ákváðum því að stinga ekki af frá sökkvandi skipi. Við vorum að lokum sammála um að þetta væri besta lausnin í bili.“

Varðandi ákvörðun Guðna um að segja af sér segir Borghildur að hún hafi verið tekin í kjölfar umræðu innan stjórnarinnar. „Við vorum sammála um að þetta þyrfti að gerast.“

Höfuðstöðvar KSÍ í dag.
Höfuðstöðvar KSÍ í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Stjórnin gæti enn boðað til auka ársþings

Ein­hverj­ir halda því fram að stjórn­in hafi hafnað þeirri til­lögu að halda auka ársþing þar sem stjórn sam­bands­ins yrði kjör­in á nýj­an leik. 

Borghildur segir að það hafi ekki verið kosið um það sérstaklega í stjórninni. Stjórnin getur því enn boðað til slíks fundar, en ef hún segði öll af sér væri það ekki hægt. Aðeins stjórn getur boðað til auka ársþings. 

„Við teljum best að bíða fram að ársþingi, enda eru ekki nema nokkrir mánuðir til stefnu.“

Hún bendir jafnframt á að það sé ekki ljóst hvort heimilt sé að kjósa nýja stjórn á auka ársþingi. „Við þurfum að fá lögfróða menn til að skoða það.“

KSÍ biður um hjálp

Borghildur sat fundi í dag með Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur kynjafræðikennara og Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur, talskonu Stígamóta. Hún kveðst gríðarlega ánægð með þann fund. 

„Ég get upplýst að á þeim fundi vorum við bara að biðja um hjálp, aðstoð með það sem koma þarf.“

Hanna Björg og Steinunn við höfuðstöðvar KSÍ að loknum fundinum …
Hanna Björg og Steinunn við höfuðstöðvar KSÍ að loknum fundinum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

KSÍ mun nú þurfa að fara í ítarlega naflaskoðun og endurskoðun á ferlum, að sögn Borghildar. „Við viljum fá fagfólk í ofbeldisbrotum og kynferðisbrotum til að leiða þá naflaskoðun.“

Borghildur segir að stjórnin hafi ekki verið upplýst um margt af því sem nú hefur komið fram. Það sé ljóst að samfélagið þurfi nú að gera hlutina með öðrum hætti, eftir að hugaðir þolendur hafi stigið fram og lýst því sem á sér stað. 

„Þetta snýr ekki bara að knattspyrnunni heldur öllu í okkar samfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert