Telja að andlát hafi borið að með saknæmum hætti

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar andlát konu á sextugsaldri sem lést á Landspítalanum fyrr í mánuðinum. Talið er að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Ekki hafa enn fengist upplýsingar um hvort konan hafi verið sjúklingur, starfsmaður spítalans eða gestkomandi.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir í samtali við mbl.is að krufningu sé lokið en niðurstöðu hennar sé enn beðið. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig og var hann spurður um hvort talið sé að andlátið hafi orsakast af ásetningi einhvers annars eða gáleysi einhvers, t.a.m. starfsmanns spítalans.

Í tilkynningu frá Landspítala segir að hvorki starfsmenn spítalans né stjórnendur hans muni tjá sig um málið á meðan það er til rannsóknar lögreglu. Þar að auki segir að embætti landlæknis hafi tilkynnt um málið til lögreglu, eins og lög kveða á um að sé gert þegar „óvænt andlát“ beri að. 

Segja að sjúklingurinn hafi kafnað

Í hádegisfréttum Bylgjunnar annars vegar og Rúv hins vegar kemur fram að haft sé eftir heimildum að hjúkrunarfræðingur á geðdeild spítalans sé grunaður um manndráp. Það er kona, einnig á sextugsaldri, og á hún að hafa reynt að troða mat ofan í sjúkling með þeim afleiðingum að hann kafnaði. 

Lögregla segir að rannsókn málsins gangi vel, en þann 25. ágúst var kona á sextugsaldri úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Lögregla vill ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert