Samstarfssamningur háður umbótum KSÍ

Icelandair er einn stærsti styrktaraðili og samstarfsaðili Knattspyrnusambandsins og hefur …
Icelandair er einn stærsti styrktaraðili og samstarfsaðili Knattspyrnusambandsins og hefur verið það til margra ára. mbl.is/Eggert

Styrktarsamningar milli Icelandair og KSÍ eru lausir sem stendur og Icelandair fundaði í dag með sambandinu. „Við leggjum áherslu á að sambandið sýni á næstunni fram á áætlun um hvernig verði unnið markvisst að umbótum áður en ákvörðun verður tekin um áframhaldandi samstarf.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Icelandair við fyrirspurn blaðamanns. 

Icelandair er einn stærsti styrktaraðili og samstarfsaðili Knattspyrnusambandsins og hefur verið það til margra ára. Fyrirtækið segist því taka stöðuna innan sambandsins mjög alvarlega. 

Samningar lausir

Við áttum fund með forsvarsfólki sambandsins í dag þar sem farið var yfir stöðuna. Það er okkur mikilvægt að gildi þeirra aðila sem við erum í samstarfi við samræmist gildum Icelandair, meðal annars að viðkomandi búi yfir menningu sem stuðlar að jafnrétti og virðingu.“

Samstarf Icelandair og KSÍ hefur verið farsælt til þessa en nú eru samningar lausir, að sögn upplýsingafulltrúa Icelandair. Ákvörðun um áframhaldandi samstarf verður ekki tekin fyrr en KSÍ sýnir fram á að unnið verði markvisst að umbótum. 

mbl.is