Krefjast úrbóta við afgreiðslu alvarlegra atvika

Frá Landspítala.
Frá Landspítala.

Félag sjúkrahúslækna, læknaráð Landspítala og Læknafélag Íslands setja fram kröfu um úrbætur í málum er tengjast úrvinnslu alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu. Um leið vilja þau minna á seinagang hlutaðeigandi stjórnvalda og stjórnsýsluaðila í eftirfylgni á tillögum starfshóps frá 2015.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi sjúkrahúslækna, Læknaráði Landspítala og Læknafélagi Íslands.

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu til­kynnti á sunnudag að hún hefði til rann­sókn­ar and­lát konu á sex­tugs­aldri sem lést á Land­spít­al­an­um fyrr í mánuðinum. Síðar hef­ur komið fram að hjúkr­un­ar­fræðing­ur á Land­spít­al­an­um sé grunaður um mann­dráp.

Stjórnvöld þurfi að grípa til aðgerða með tilliti til álags

„Mikilvægt er að koma á farvegi fyrir tilkynningar og samskipti sem taka tillit til sérstakra rannsóknarhagsmuna innan heilbrigðiskerfisins. Viðurkenna þarf refsiábyrgð vinnuveitanda þar sem hún á greinilega við í stað þess að heilbrigðisstarfsmaður sé persónulega sóttur til saka eftir atvik sem fyrst og fremst á rætur að rekja til starfsumhverfis og allt of mikils álags. Ábyrgð stjórnenda á kerfislægum mistökum vegna ófullnægjandi starfsaðstæðna, undirmönnunar og óhóflegs álags þarf að vera skýr. “

Engar skýrar úrbætur

Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir skýrslu og tilmæli sérstaks starfshóps frá árinu 2015 um úrvinnslu alvarlegra atvika innan heilbrigðiskerfisins hafi engar skýrar úrbætur orðið. Réttarstaða heilbrigðisstarfsfólks sé því áfram óljós auk þess sem afgreiðsla slíkra mála innan stjórnkerfisins sé alltof tímafrek.

„Félag sjúkrahúslækna, Læknaráð Landspítala og Læknfélag Íslands vilja því spyrjast fyrir um núverandi stöðu þess mikilvæga málaflokks innan stjórnkerfisins. Erindinu er beint bæði til þeirra sem bera ábyrgð á stjórnsýslu þessa málaflokk og þeirra stofnanna sem áttu fulltrúa í starfshópnum, þ.e. heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis (áður innanríkisráðuneytis), Embættis landslæknis, Ríkissaksóknara og Landspítala. “

Tillögur starfshóps Velferðarráðuneytisins 2015 voru eftirfarandi og spurningar um eftirfylgni þeirra fylgja.

  • Velferðarráðuneytið vinni reglugerð um viðbrögð og rannsókn Embættis landlæknis á óvæntum, alvarlegum atvikum og óvæntum dauðsföllum. (Hefur þessi reglugerð verið sett eða undirbúningur hafinn að vinnu hennar?)
  • Ríkissaksóknari gefi út fyrirmæli til handa lögreglu um rannsókn óvæntra, alvarlegra atvika og óvæntra dauðsfalla. (Hafa þessi fyrirmæli verði gefin út eða undirbúningur hafinn að vinnu þeirra?)
  • Unnar verði verklagsreglur hjá Embætti landlæknis og lögreglu þar sem samstarf þessara stjórnvalda verði nánar útfært varðandi rannsókn óvæntra, alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu og óvæntra dauðsfalla. (Hafa þessar verklagsreglur verið settar eða undirbúningur hafinn að vinnu þeirra?)
  • Mælt er með því að Embætti landlæknis og lögregla skipuleggi samstarf um rannsóknaraðgerðir, til dæmis með því að koma á fót vettvangsrannsóknarteymi. (Hefur þetta samstarf verið skipulagt og hefur verið komið á fót vettvangsrannsóknarteymi eða skoðað hvort tilefni sé til að koma því á laggirnar?)
  • Skýra þarf nánar í lögum hvaða óvæntu dauðsföll ber að tilkynna til lögreglu. (Hefur verið skýrt nánar eða betur í lögum hvaða óvæntu dauðsföll eigi að tilkynna til lögreglu eða undirbúningur hafinn að slíkri vinnu?)
  • Tekið verði upp samræmt skráningakerfi um skráningu, úrvinnslu og eftirfylgd atvika um allt land. (Hefur samræmt skráningarkerfi verið innleitt eða undirbúningur hafinn að slíkri vinnu?)
  • Innanríkisráðuneytið taki til skoðunar hvort rétt sé að bæta ákvæði um cumulativa hlutlæga refsiábyrgð í almenn hegningarlög. (Hefur ákvæði um ofangreinda hlutlæga refsiábyrgð verið endurskoðað í almennum hegningarlögum eða undirbúningur hafinn að þeirri vinnu?)
  • Embætti landlæknis og lögreglu verði tryggt fjármagn til að ráðast í aðgerðir til að bæta verklag á þessu sviði. (Hafa embætti landlæknis og lögregla fengið sérstakt fjármagn til ráðast í ofangreindar úrbætur í þessum málaflokki eða hefur verið gert úttekt á því hvaða fjármuni gæti verið um að ræða?)
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert