„Eins lítil ábyrgð og hægt er að axla“

Þórhildur Gyða segir mál KSÍ í réttum farvegi.
Þórhildur Gyða segir mál KSÍ í réttum farvegi. Ljósmynd/Aðsend

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir kveðst ánægð með ákvörðun Guðna Bergssonar, fyrrverandi formanns Knattspyrnusambands Íslands, og stjórnar KSÍ um að segja af sér og telur hún málið vera í réttum farvegi.

Þórhildur kom fram í viðtali hjá RÚV í síðustu viku og greindi frá kynferðisofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu landsliðsmanns á skemmtistaðnum b5 árið 2017. Lagði hún í kjölfarið fram kæru og var KSÍ gert viðvart um málið ári seinna.

Fyrir viðtal Þórhildar hafði þáverandi formaður Knattspyrnusambandsins, Guðni Bergsson, nýlega komið fram og fullyrt að engin kynferðisofbeldismál hefðu komið inn á borð stofnunarinnar. Hefur hann nú beðist afsökunar á ummælunum og sagt sig frá embættinu.

„Þetta er kannski eins lítil ábyrgð og hægt er að axla í þessum málum. Þessi yfirlýsing til þolenda var frekar aum að mínu mati. Það er ekki rétt orðað að segja að þau séu að axla ábyrgð en þau hafa allavega ekki reynt að þrauka. Þau hafa séð að sér.“

Þörf á róttækum breytingum

Þrátt fyrir að vera ánægð með þetta skref segist Þórhildur þó vilja taka málið lengra enda sé þar enn mikinn vanda að finna. Hún segir mikla þörf á róttækum breytingum til að hægt sé að uppræta ofbeldið og nauðgunarmenninguna sem hefur verið ríkjandi innan stofnunarinnar. Hafi það meðal annars sést á viðbrögðum KSÍ við máli hennar á dögunum.

„Það var klárlega tregi meðal þeirra til að byrja með. Það var til dæmis notað gegn mér að pabbi minn hefði beðið um trúnað og þess vegna hafi þetta ekki komið inn á borð stjórnar.

Það er bara alls ekki rétt, þannig ég hugsaði annað hvort vitið þið ekki hvað þið eruð að tala um eða þið eruð að reyna að fela eitthvað meira. Þannig ég var fegin að treginn varð ekki til lengri tíma en þetta.“

Segir Þórhildur það góða byrjun að jafna kynjahlutfallið í stjórn Knattspyrnusambandsins. Vill hún einnig að Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segi af sér. Klara er nú í tímabundnu leyfi frá störfum vegna málsins.

Finnur fyrir miklum stuðningi

Þórhildur segist gífurlega ánægð með viðbrögðin í samfélaginu og að hún finni fyrir miklum stuðningi meðal almennings í landinu.

„Viðbrögðin eru bara framar öllum mínum vonum. Aldrei nokkurn tímann hefði ég búist við því að það væru svona margir að fara að standa við bakið á mér í gegnum þetta. Það er bara gjörsamlega ómetanlegt. Ég er ekkert hætt, það er ekki hægt að stoppa hér. Ég mun klárlega fylgja þessu máli eftir þrátt fyrir að vera í hundrað prósent námi og fimmtíu prósent vinnu, og svo eru baráttumálefni hliðarvinnan,“ segir hún og hlær við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert