Fangavörður greindist með Covid

Fangelsið Litla-Hraun.
Fangelsið Litla-Hraun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fangavörður á Litla-Hrauni greindist með Covid-smit í fyrrakvöld, en þetta er í fyrsta sinn frá því kórónuveirufaraldurinn hófst sem fangavörður greinist smitaður. Tveir fangaverðir eru komnir í sóttkví.

„Það kom upp í fyrrakvöld smit hjá fangaverði á Litla-Hrauni. Í samráði við smitrakningarteymið voru tveir fangaverðir settir í sóttkví. Síðan höfum við farið yfir málin með sóttvarnayfirvöldum og það þótti ekki ástæða til þess að grípa til frekari aðgerða annarra en hefðbundinna sóttvarnaaðgerða, hólfaskiptingu innan fangelsisins og svo framvegis,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is, og bætir við að meðalhófs verði gætt gagnvart skjólstæðingum fangelsisins. 

Rúv greindi fyrst frá smitinu. 

Aðspurður segir Páll að þetta sé í fyrsta sinn í þessum faraldri sem starfsmaður greinist smitaður. „Við erum búin að fara í gegnum þetta eina og hálfa ár án þess að þetta hafi komið upp. Við vonumst til að þetta sé einstakt tilvik, en auðvitað er útbreiðslan mikil núna og kannski erfiðara að eiga við þetta. En við búum að því að allir starfsmenn eru bólusettir og all flestir fangar líka,“ segir Páll. 

Þá segir hann að fangavörðurinn sem greindist með veiruna sé ekki mikið lasinn. Vonast sé til þess að hann mæti hress til vinnu um leið og hann fær heimild til. 

Var á næturvöktum og átti ekki í samskiptum við fanga

„Mér finnst býsna magnað, og sýnir hvað starfsfólk hefur vandað sig að þetta hafi ekki komið upp fyrr í þessu árferði. Þetta hefur verið verulega stórt vandamál í fangelsum í ríkjunum í kringum okkur.“

Aðspurður segir Páll, að fangavörðurinn sem greindist hafi ekki átt í neinum samskiptum við fanga þar sem hann hafi verið á næturvöktum. Menn geri því ráð fyrir að engin smit eigi eftir að koma upp meðal fanga. 

Páll segir að stefnt sé að því að taka upp hraðpróf á starfsfólki reglulega. Búið sé að fjárfesta í slíkum prófum og nú sé næsta skref að koma þeim í notkun. Menn vandi sig eins og þeir geti í hvívetna þegar það komi að sóttvörnum í fangelsum landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert