Plastpokar kærðir til Persónuverndar

Sorpa hefur ekki tekið á móti svörtum pokum frá 1. …
Sorpa hefur ekki tekið á móti svörtum pokum frá 1. júlí. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Sorpa

Sorpu hefur borist afrit af kæru einstaklings til Persónuverndar vegna innleiðingu glærra ruslapoka á endurvinnslustöðvum en frá 1. júlí hefur verið innheimt gjald ef komið er með annars konar ruslapoka sem ekki sést í gegnum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Viðkomandi telur að Sorpu sé ekki heimilt að krefjast þess að úrgangur komi í gegnsæjum pokum og vísar í friðhelgi einkalífs, máli sínu til stuðnings.

Karl Hrannar Sigurðsson er lögfræðingur og sérfræðingur á sviði persónuverndar. Hann telur að kæran kunni að vera langsótt þar sem persónuverndarlög gilda aðeins ef um er að ræða varðveitingu og meðhöndlun persónuupplýsinga. Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri fullyrðir að Sorpa skrái ekki hjá sér innihald pokanna eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar. Að því gefnu verði að telja ólíklegt að krafan um glæra ruslapoka varði brot á persónuverndarlögum.

Greint var frá kærunni í skýrslu framkvæmdastjóra á stjórnarfundi Sorpu. Þar kom einnig fram að innleiðing glærra poka á endurvinnslustöðvum gangi almennt vel og ánægja sé meðal viðskiptavina Sorpu með þessa breytingu. Smásalar hafa margir hætt sölu á ógagnsæjum pokum og finnur Jón Viggó fyrir áhuga á að auka samstarf við Sorpu um endurvinnslu og ábyrga flokkun.

Jón Viggó segir Sorpu fagna því að málið hafi komið fram og persónuvernd fái tækifæri til að skera úr um það. Hann kveðst þó ekki hafa miklar áhyggjur af niðurstöðunni. „Við erum engan veginn að pæla í hverju fólk er að henda.“

Líf Magneudóttir er stjórnarformaður Sorpu. Hún tekur í sama streng en segist hafa skilning á því að einhverjir hafi áhyggjur af þessu og eðlilegt að taka umræðuna. „Fólk þarf samt ekkert að vera vandræðalegt að fara með ónýtt kynlífsleikfang á endurvinnslustöðvar, það flokkast bara sem raftæki.“

Jón Viggó segir fyrirkomulagið vera í þágu hringrásarhagkerfisins. Það sé auðveldara að leiðbeina fólki ef það kemur með ruslið í glærum pokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert