Eldgosið í Geldingadölum heldur takti

Púlsandi virkni er í eldgosinu í Geldingadal, samkvæmt upplýsingum náttúruvársérfræðings …
Púlsandi virkni er í eldgosinu í Geldingadal, samkvæmt upplýsingum náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Kristinn Magnússon

Enn er líf í eldgosinu í Geldingadölum við Fagradalsfjall en tæplega fimm og hálfur mánuðir eru liðnir frá því að gosið hófst þann 19. mars.

„Það er áfram þessi púlsandi virkni í eldgosinu sem hefur verið undanfarna daga og vikur. Það gýs í nokkra tíma og svo dettur óróinn niður og gosið hættir í nokkra klukkutíma. Þetta er enn þá þetta reglulega form sem við höfum verið að sjá og engar markverðar breytingar að sjá á hegðun gossins nýlega," segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Lítil gasmengun hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni í dag vegna lítils vindhraða, segir Lovísa innt eftir því.

Í nótt og á morgun fer að hvessa með suðaustanátt. Þá gæti gas borist til norðurs og norðvesturs og gæti þess orðið vart í bæjum norðanmegin á Reykjanesi, samkvæmt gasdreifingarspá Veðurstofu Íslands.

Fram að þessu hafa minnst 265.837 manns hafa lagt leið sína upp í Geldingadölum til þess að berja gosið augum, samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar og er það engin furða enda um stórkostlegt sjónarspil að ræða.

Ferðamenn á göngu í Geldingadal.
Ferðamenn á göngu í Geldingadal. mbl.is/Eggert Jóhannesson


 

mbl.is