Áfangasigur hjá Loo er kröfu nágranna var hafnað

Malasíumaðurinn Loo við kúluhús sín og hjólhýsi að Leyni 2 …
Malasíumaðurinn Loo við kúluhús sín og hjólhýsi að Leyni 2 og 3. mbl.is/​Hari

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað því að ógilda ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra um að samþykkja deiliskipulag fyrir Leyni 2 og 3 í Landsveit. Um er að ræða umdeildan landskika þar sem Malasíumaðurinn Loo Eng Wah hyggst koma á fót ferðaþjónustu.

Nágrannar Loo hafa sett sig upp á móti áformum hans eins og Morgunblaðið hefur greint frá. Í kærunni kveðast þeir hafa fjárfest í eignum og innviðum á svæðinu en með fyrirhuguðum skipulagsáformum sé hagsmunum þeirra fórnað í þágu tiltekins aðila. Þá átelja þeir meðferð sveitarfélagsins og telja að ekki hafi verið gætt að stöðu svæðisins sem vatnsverndarsvæðis.

Þessu hafnaði sveitarfélagið í svörum til úrskurðarnefndarinnar og sagði að fyrirhugað væri að hlúa að þeim lágstemmda takti sem einkenndi svæðið. Loo sagði í svörum sínum að breyting á landnotkun að Leyni 2 og 3 væri í samræmi við raunverulega notkun landsins undanfarinn áratug.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál tengd uppbyggingunni að Leyni 2 og 3 kemur fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu felldi nefndin síðasta vor úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir þar skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun mun því ákvarða á ný hvort þörf sé á umhverfismati á svæðinu. Fyrr verður ekki gefið út framkvæmdaleyfi.

Í fréttum Morgunblaðsins hefur komið fram að Loo hyggst reisa allt að 200 fermetra þjónustuhús fyrir tjaldsvæði að Leyni 2 og 3, allt að 800 fermetra byggingu fyrir veitingastað, verslun, móttöku og fleira og allt að 45 gestahús á einni hæð, sum þeirra 60 fermetra að stærð og kúluhús við hvert og eitt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert