Veður hamlar mælingum

Ljóst er að yfirborð hraunsins sígur djúpt í gígnum á …
Ljóst er að yfirborð hraunsins sígur djúpt í gígnum á milli goshrina. Fyrir neðan sjálfa gígskálina er nokkuð djúpt niðurfall. Svo þegar næsta goshrina hefst tekur það töluverðan tíma fyrir hraunkvikuna að fylla gíginn upp á barma áður en hraunið fer að bulla upp úr honum og renna út frá gígnum. Ljósmynd/Jón Steinar Sæmundsson

Nýjar tölur um stækkun hraunsins við Fagradalsfjall liggja ekki fyrir því veðrið undanfarnar vikur hefur ekki leyft loftmyndatökur. Síðasta mæling var gerð 8. ágúst. Skýjahæð þarf að vera minnst 2.000 metrar svo hægt sé að taka loftmyndir sem lagðar eru til grundvallar útreikningum á stærð hraunsins, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

„Það er beðið eftir því að það gefi til flugs og þær mælingar verða nokkuð mikilvægar,“ sagði Magnús Tumi. Hann sagði að gosið væri í nokkuð föstum skorðum.

„Hraunið hefur ekkert stækkað að flatarmáli og ekki brotið undir sig nýtt land í nokkrar vikur. Það breiðist út ofan á sjálfu sér sem er afleiðing af því hvað gosið er lotubundið. Það koma tímabil þegar er ekkert hraunrennsli og þá lokast hraunrásir. Svo byrjar þetta á ný með flæði á yfirborðinu. Þá er kælingin miklu meiri. Hraunið kemst í Meradali, Geldingadali og Nátthaga en nær ekki út að jaðrinum áður en það stoppar. Þetta bunkast því upp nálægt gígnum. Á meðan þetta varir er að byggjast þarna upp eitthvað sem líkist lítilli dyngju.“

Magnús Tumi segir að þegar hraunrennslið sé stöðugt hafi það tilhneigingu til að renna undir yfirborðinu. Það kólni þá mjög lítið og geti runnið langt. Eitt dæmi um slíkt er Tvíbollahraun, einnig nefnt Hellnahraun, sem rann úr Grindaskörðum og náði niður undir sjó. Þar hefur verið hægt en stöðugt hraunrennsli sem náði að renna töluvert langa leið. Gengið er yfir þetta hraun að hluta þegar farið er á Helgafell ofan við Hafnarfjörð. Hluti af Vallahverfi í Hafnarfirði er byggður á þessu hrauni.

Lækkar í gígnum í hléum

Ljóst er að yfirborð hraunsins í gígnum í Geldingadölum lækkar verulega mikið á milli goshrina. Jón Steinar Sæmundsson í Grindavík tók drónamyndir af gígnum í slíku goshléi í júlí. Myndskeið frá honum birtist á Facebook-síðu Víkurfrétta 27. júlí og Jón Steinar leyfði Morgunblaðinu að birta meðfyljandi mynd sem sýnir ofan í óvirkan gíginn.

„Á þessum myndum sést að gígurinn er hyldjúpur og niður úr honum er djúpt niðurfall. Hraunrennslið dettur alveg niður og þrýstingurinn fellur alveg þegar þetta stoppar. Það er ljóst að það gerist mjög snöggt og þá tæmist gígurinn alveg. Þegar rennslið byrjar aftur tekur marga klukkutíma að fylla gíginn áður en hraun fer að renna út,“ sagði Magnús Tumi. Gígskálin er um 60-70 metra djúp og svo nær niðurfallið enn dýpra. Mælingar sem gerðar hafa verið benda til þess að í goshléum fari yfirborð hraunkvikunnar í rásinni niður fyrir yfirborð landsins eins og það var fyrir gos.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »