Barnið hætti að anda

„Þeir hefðu drepið mig. Þeir voru byrjaðir að ganga hús …
„Þeir hefðu drepið mig. Þeir voru byrjaðir að ganga hús úr húsi að leita að fólki sem vann fyrir ríkisstjórnina og þá sérstaklega konum,“ segir Zeba Sultani. mbl.is/Ásdís

Zeba Sultani og Khairullah Yosufi eru ung hjón frá Afganistan sem flúðu til Íslands í síðustu viku. Þau urðu að skilja drenginn sinn eftir aðeins tveggja mánaða gamlan en hann missti meðvitund í mannþrönginni við flugvöllinn í Kabúl þegar fjölskyldan reyndi að komast úr landi. Þau voru á lista íslenskra stjórnvalda yfir þá afganska flóttamenn sem fá hér hæli, en Zeba hafði verið hér í Jafnréttisskóla HÍ.

Það gekk ekki þrautalaust að komast inn á flugvöllinn. Khairullah hélt á barninu og reyndi að komast að hliðinu þar sem þeim yrði hleypt í gegn. Troðningurinn var svo mikill að allt í einu tók Khairullah eftir því að barnið hafði misst meðvitund.

„Hann hreyfðist ekki og var orðinn kaldur og opnaði hvorki augun né munninn. Ég hélt hann væri dáinn. Ég setti hann niður og byrjaði að hnoða brjóstkassann og þá tók hann að anda á ný.“

Þau vinna nú að því að fá barnið heim til Íslands og segja að ef þau hefðu orðið eftir, hefðu þau verið drepin af talibönum.

„Við tókum þessa ákvörðun fyrir hans framtíð. Hann myndi ekki eiga neina framtíð í Afganistan,“ segir Zeba í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina, en ítarlegt viðtal er við þau í blaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »