Hljóp 10 kílómetra á milli lyfjagjafa

Hlaupið tók á en Hildur segir að henni hafi liðið …
Hlaupið tók á en Hildur segir að henni hafi liðið mjög vel eftir á.

Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, sem greindist á skömmu tímabili með krabbamein í tvígang, hljóp í dag tíu kílómetra til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Hildur Eir og þau sem með henni hlupu söfnuðu samtals 800.000 krónum og stendur söfnunin enn yfir. Hildur er sjálf í lyfjameðferð sem stendur og valdi því dagsetningu fyrir hlaupið út frá því.

„Það voru nokkrir frá Akureyri sem ætluðu að hlaupa fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar Í Reykjavíkurmaraþoninu, það varð auðvitað ekkert úr því. Ég ákvað að hóa í fólk og kanna hvort það væri tilbúið að hlaupa með mér 4. september, því það hentaði mér þar sem ég fer í lyfjagjöf á mánudaginn,“ segir Hildur Eir í samtali við mbl.is.

Á síðu Hildar á vef Reykjavíkurmaraþonsins er enn hægt að heita á hana og leggja Krabbameinsfélagi Akureyrar lið.

Nokkur fjöldi tók saman höndum, eða fótum, og hljóp fyrir …
Nokkur fjöldi tók saman höndum, eða fótum, og hljóp fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar í dag.

„Ég hleyp af því að ég get það“

Eftir lyfjagjafir verður Hildur mjög þreytt og því var eina vitið að reima hlaupaskóna nú um helgina. Allir sem hún ræddi við voru tilbúnir í að spretta úr spori. Hlaupið var frá Kristnesi og vildi svo heppilega til að hópurinn fékk meðvind alla leið. Hlaupararnir klæddust bolum frá Krabbameinsfélagi Akureyrar sem stendur á „Ég hleyp af því að ég get það“. Og það gerði Hildur einmitt, þrátt fyrir að hún sé enn í lyfjameðferð sem tekur verulega á. Hlaupið var því ekki það auðveldasta sem Hildur hefur farið í.

„Ég var með derhúfu og ég svitnaði svo mikið að það var farið að dropa af skyggninu, eins og eftir rigningu. Mér leið samt bara mjög vel eftir hlaupið sem sýnir hvað maður hefur gott af því að reyna töluvert á sig þó svo að maður sé að ganga í gegnum svona,“ segir Hildur.

Hún greindist fyrst með krabbamein í fyrra og svo aftur í lok mars. Í lok apríl fór Hildur í stóra aðgerð og eftir hana tók lyfjameðferð við. Hún heldur áfram eitthvað fram í september.

Frá hlaupinu í dag.
Frá hlaupinu í dag.

Sófinn freistandi en hreyfingin hjálpar

Aðspurð segir Hildur að lyfjameðferðin gangi vel.

„Þetta lítur allt bara vel út en lyfjameðferðin sígur alltaf í. Maður verður alltaf slappari og slappari með hverri lyfjagjöf en samt er ég búin að vera alveg ótrúlega hress. Það sem hefur hjálpað mér hvað mest er að hreyfa mig reglulega, líka þegar ég nenni því ekki. Það hefur algjörlega bjargað mér.“

Hildur segir að það hafi hjálpað henni að vera með markmiðið að hlaupa 10 kílómetra.

„Ég hef orðið slappari með hverri lyfjagjöf og þá hefur verið freistandi að vera uppi í sófa en vegna þess að ég vissi að ég ætlaði að hlaupa þetta þá hugsaði ég með mér að ég yrði að halda mig í einhverri æfingu, annars kæmist ég ekki. Geðlyfið mitt er að hreyfa mig og það skiptir ofboðslega miklu máli þegar maður er undir svona álagi.“

Hildur segir að Krabbameinsfélag Akureyrar hafi hjálpað henni mikið í baráttunni en Hildur hefur bæði þegið þar þjónustu og starfað þar sem fagaðili.

„Þar hef ég hlotið stuðning og átt skjól og fundið hvað félagið vinnur ótrúlega mikilvægt starf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert