„Karlarnir eiga boltann“

Margrét Hafsteinsdóttir, stjórnarmaður í Knattspyrnudeild KR og formaður meirstaraflokksráðs kvenna.
Margrét Hafsteinsdóttir, stjórnarmaður í Knattspyrnudeild KR og formaður meirstaraflokksráðs kvenna. Samsett mynd

„Það er lykilatriði að fá fleiri konur til starfa. Þær verða að þora að fara inn í stjórnir og láta til sín taka. Karlar taka allt plássið. Konur þurfa að taka meira pláss. Þetta snýst um virðingu og að fá konur til að taka meiri þátt. Það vantar konur í þjálfun, það vantar konur í nefndir, við þurfum þeirra sýn,“ segir Margrét Hafsteinsdóttir, stjórnarmaður í Knattspyrnudeild KR og formaður meistaraflokksráðs kvenna.

Að sögn Margrétar er nauðsynlegt að rödd kvenna fái meiri áheyrn innan knattspyrnuheimsins enda hefur hallað allverulega á málefni þeirra undanfarin ár og tengist það meðal annars rótgróinni karlamenningu knattspyrnuheimsins sem hefur mikið verið til umræðu síðastliðna viku í kjölfar þess að upp komst að Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, hafi farið með rangt mál þegar hann fullyrti að engin tilkynning um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð stofnunarinnar. Hefur sambandið setið undir mikilli gagnrýni vegna þess og hefur það meðal annars verið sakað um gerendameðvirkni og þöggun.

Segir hún karllæga menningu stórt vandamál innan knattspyrnuheimsins og að gera þurfi algjöra byltingu hvað varðar fjölgun kvenna í stjórnum. Munu málefni er varða jafnrétti kynjanna ekki breytast almennilega fyrr en það gerist. Sjálf hefur Margrét setið í stjórn KR í átta ár kveðst hún hafa þurft að beita mikilli hörku til að byrja með enda hafi ekki verið auðvelt verkefni að vera þar eina konan.

„Tvær konur á móti 14 körlum í stjórn KSÍ er náttúrulega bilun. Þetta er karlasamfélag en það er ekki þar með sagt að þeir vilji koma í veg fyrir að konur komist inn. Það eru fleiri dyr opnar fyrir þeim, þeir kannski þekkjast og eru kunningjar, þetta eru synir einhverra. Karlmenn tala við aðra karlmenn, það er bara þannig. Tengslanetið þeirra er einfaldlega sterkara í þessum heimi. Þetta eru ekki vondir karlar, þeir vilja vel. Það vantar kannski bara að þeir geri það auðveldara fyrir konur að komast að.“

Segist Margrét vita til þess að konur hafi verið að sækjast eftir störfum, meðal annars þjálfarahlutverkum, en fallið í lægra hlut karlmanns umsækjenda. Segir hún mikilvægt að konur verði ráðnar inn í meira mæli til að skapa fordæmi og opnara starfsumhverfi fyrir kvenfólk. Enda geti verið erfitt fyrir konur að athafna sig í starfsumhverfi þar sem karlar eru yfirgnæfandi meirihluti.

„Karlar beita því oft fyrir sér að það séu engar konur að bjóða sig fram en það er alveg erfitt fyrir konur að fara inn þar sem allir eru karlar. Oft velti ég fyrir mér hvort það þurfi ekki að setja á sextíu - fjörutíu kynjakvóta. Kannski er það eina leiðin.“

Átakið þarf að byrja innan félaganna

Að sögn Margrétar liggur vandamálið þó ekki alfarið hjá KSÍ heldur þurfa félagsliðin einnig að taka til sín umræðuna í samfélaginu. Vill hún meðal annars sjá meiri samgang á milli félaganna og krakkanna þegar kemur að fræðslu um jafnréttismál.

„Þessi eitraða klefamenning verður ekki til í 10 daga landsliðsglugga. Uppræting á þessari eitruðu karlmennsku þarf að byrja í félögunum, það þarf að byrja að vinna með krökkunum þegar þau eru yngri. Við getum ekki fríað okkur undan því og skellt skuldinni alfarið á KSÍ.“

Margrét kveðst ekki vera með neina töfralausn sjálf en hún telur þó mikilvægt að jafnréttismál fái meiri viðkomu inn í þjálfaramál og íþróttahreyfinguna í heild sinni. Segir hún mikilvægt að félagsliðin horfi í fleiri atriði en að bæta krakka og aðra félagsmenn sem íþróttafólk. Það þurfi að horfa til fleiri þátta enda verji börn og unglingar umtalsverðum tíma á íþróttaæfingum í hverri viku. Sé því ekki hægt að líta fram hjá uppeldishlutverki sem íþróttahreyfingin hefur.

„Það þarf að setja upp einhverskonar námskeið eða leiðsögn sem varðar jafnréttismál og virðingu fyrir hinu kyninu. Hvernig þú kemur fram við aðra manneskju. Þjálfarar geta verið algjörar fyrirmyndir, ég tala nú ekki um ef þetta eru þjálfarar í meistaraflokki. Þau líta bilað upp til þeirra og á heimilunum heyrir maður bara að orð þjálfarans eru orð Guðs.

Jú það er gott að vera með nefnd innan KSÍ sem tekur á móti kvörtunum en það þarf að byrja áður en það gerist. Við erum með fræðslu um heilsu, matarræði og markmiðasetningar sem snúa að því að gera þig að betri íþróttamanna en stundum vantar fræðslu um hvernig er hægt að bæta þig sem manneskju eða hjálpa þér að vera góð manneskja áfram.“

Staða kvenna hefur breyst en er enn slæm

Augljós birtingarmynd af karllægu menningu fótboltaheimsins segir Margrét meðal annars vera staða og viðhorfið í garð kvenna boltans. Þrátt fyrir miklar framfarir í jafnréttismálum undanfarin ár hallar enn verulega á hlut kvenna í þessum málum.

„Hefðiru talað við mig fyrir átta árum hefði ég verið í miklu reiðari yfir þessu. Þetta hefur náttúrulega breyst talsvert á síðustu árum. Ég man alveg þegar stelpurnar fengu miklu lélegri tíma og á ömurlegum völlum. Bara það að fá sömu aðstöðu og karlaflokkarnir var alveg vinna en það tókst þó það sé ekki alveg unninn sigur í því máli.“

Segir hún umgjörðin í kringum karla- og kvennaboltann enn talsvert ólíka þar sem félögin leggi almennt meiri metnað og fjármagn í að halda uppi meistaraflokkum karla. Hefur rekstur kvennaflokkanna verið mikið baráttumál í gegnum tíðina og er gjarnan farið fram á að þeir séu reknir á núlli. Þykir þó ekkert tiltöku mál þó karla flokkarnir sitji uppi með stóran mínus í lok árs, meðal annars vegna launatengds kostnaðar leikmanna.

Að sögn Margrétar er ekki hægt að horfa fram hjá því að tekjur og áhorf sé meira karlameginn en hún vekur þó einnig athygli á að þetta snúist einnig um viðhorf styrktaraðila og stjórnenda. Telur hún þá mikilvægt að styrktaraðilar félaganna beiti sér meira fyrir því að stærra hlutfall styrkjanna fari inn í kvennaboltann. „Bara það að 20-30% af styrkjunum komi til okkar myndi breyta helling. Meðal stjórnenda er því oft beitt sem afsökun að styrktaraðilar vilji að peningurinn fari aðallega í karlaboltann en það er ekki alltaf rétt.“

Tekur hún þó fram að jafnréttismálum sé mun betur farið meðal yngri flokka liðanna. Séu bæði stjórnir félaganna og foreldrar meira vakandi fyrir að staðið sé rétt að þeim málum meðal þeirra. „Kannski er vegferð nú farin í gang sem endar vel. Hingað til hafa þó jafnréttismálin í knattpsyrnuheiminum hallað all verulega á kvenfólk og það þarf að breytast. Karlarnir eiga boltann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert