„Þetta er valdníðsla á hæsta stigi“

Breytingin samræmist ekki skipulagi svæðisins.
Breytingin samræmist ekki skipulagi svæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

„Reykjavíkurborg hefur slegist við okkur í tvö og hálft ár. Þetta er valdníðsla á hæsta stigi. Það er gjá á milli framkvæmdadeildar og skipulagsyfirvalda í borginni. Þegar búið er að gera skipulag og kynna kemur framkvæmdadeildin og gerir það sem henni dettur í hug,“ sagði Hilmar Páll Jóhannesson hjá Loftkastalanum.

Lóðinni skipt upp

Fyrirtækið keypti þrjár fasteignir og byggingarrétt í Gufunesi árið 2018. Um var að ræða verksmiðjuhús sem áður hýstu hluta Áburðarverksmiðjunnar. Gólfkóti húsanna (hæð gólfs yfir sjó) er mjög svipaður eða frá 8,36-8,4 metrar. Lóðin er um 1.800 fermetrar. Félagið vinnur að nýsmíði, leikmyndagerð, nýsköpun, hönnun og þróun á búnaði fyrir endurvinnslu á frauðplasti.

„Við ætluðum að setja upp leikmyndaverkstæði og lítið stúdíó á lóðinni en við höfum ekki getað haldið áfram þeim framkvæmdum því það er ekki enn búið að gefa út réttan hæðarkóta. Það kemur ekki til greina að hafa 60 sentimetra hæðarmun á gólfinu inni í húsunum,“ sagði Hilmar.

Hann segir að deiliskipulagið geri ráð fyrir því að lóðin sé slétt en borgin hafi skipt henni upp í misháa hluta. Baklóðin var þannig höfð 60 sentimetrum hærri en framlóðin. Það er engan veginn í samræmi við vilja Loftkastalans eða hagsmuni því þau vilja hafa gólfin í húsunum sem næst í sömu hæð. Þá bendir Loftkastalinn á að samkvæmt samþykktu deiliskipulagi sé lóðin slétt en ekki stölluð eins og borgin hafi ákveðið einhliða.

Fyrirspurn lögð fram

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrirspurn um málið á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar 1. september. Erindinu fylgdi yfirlýsing frá Orra Steinarssyni, arkitekt hjá jvantspijker & partners í Rotterdam. Hann vann deiliskipulag fyrir kvikmyndaþorp í Gufunesi fyrir borgina 2016-2019. Deiliskipulagið var auglýst og staðfest. Það gerði ráð fyrir blandaðri byggð með áherslum á skapandi iðnað og hagkvæmar íbúðir.

„Rekstrarforsendur Loftkastalans voru frá upphafi skýrar: að geta rennt stórum hlutum hindrunarlaust á milli húsa. Hvað Loftkastalann varðar var vel upplýst af þeirra hálfu að til stóð að útbúa verkstæði á lóð þeirra, m.a. fyrir framleiðslu á og flutning á stærri leikmyndum og byggingarefni. Þá lét Loftkastalinn hanna stækkun á húsum sem fyrir voru og var ráðgert að svipuð gólfhæð yrði á öllum fasteignum lóðarinnar,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Hæðarkótarnir eru rangir

Einnig skrifar Orri að eitthvað hafi farið úrskeiðis því fyrirhugaðir hæðarkótar í landinu umhverfis lóð Loftkastalans séu ekki í samræmi við þessar rekstrarforsendur, né heldur í samræmi við samráðsfundi eða kynningar sem haldnar voru með Loftkastalanum. Þar segir einnig að hlutaðeigandi aðilar hafi kvartað yfir þessu lengi vel og því sé mikilvægt að brugðist verði við mistökunum sem allra fyrst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert