Tilkynningum um ofbeldi í íþróttaheiminum fjölgar

39 ofbeldismál hafa borist til verkefnastjóra ofbeldis- og jafnréttismála hjá …
39 ofbeldismál hafa borist til verkefnastjóra ofbeldis- og jafnréttismála hjá ÍBR, það sem af er liðið ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórfalt fleiri mál hafa borist verkefnastjóra ofbeldis- og jafnréttismála hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), það sem af er liðið ári í samanburði við árið í fyrra. Hafa nú alls 39 mál komið inn en árið 2020 voru þau níu og á árinu þar á undan fjögur.

Þetta kom fram á fundi á vegum Kvenréttindafélagsins fyrr í dag sem fjallaði um kynjamisrétti og ofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar.

Stór hluti þeirra tilkynninga sem borist hafa varða kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni, eða samtals 40%. Þá varða 25% tilkynninga andlegt ofbeldi, 20% líkamlegt ofbeldi og 15% annað ofbeldi á borð við einelti.

Birta Björnsdóttir, verkefnastjóri jafnréttis- og ofbeldismála hjá ÍBR.
Birta Björnsdóttir, verkefnastjóri jafnréttis- og ofbeldismála hjá ÍBR. Ljósmynd/Aðsend

Birta Björnsdóttir, verkefnastjóri jafnréttis- og ofbeldismála hjá ÍBR, segir að aukninguna megi meðal annars rekja til háværari umræðu innan samfélagsins um ofbeldi og aukna fræðslu meðal íþróttafélaganna. „Við vorum með ráðstefnu í byrjun janúar, þá kom upp hellingur af málum og fóru þá íþróttafélögin jafnvel að endurskoða gömul mál."

Spurð hvort kynferðisofbeldi sé stærra vandamál innan íþróttahreyfingarinnar en í öðrum kimum samfélagsins kveðst Birta ekki geta staðfest það. „Ég held að íþróttir séu bara þverskurður af samfélaginu. Málið með íþróttir er hins vegar að þar getur verið mikið valdaójafnvægi, sérstaklega ef að stjórnandi brýtur gegn iðkanda, eða þjálfari brýtur gegn iðkanda.“

Telur Birta mikilvægt í því samhengi að lögð sé áhersla á jafnréttismál og fræðslu til að draga úr líkum á ofbeldi. „Ef jafnrétti er ekki til staðar þá eru meiri líkur á ofbeldi.“

Ekki nauðsynlegt að kæra til að taka á málum

Að sögn Birtu er ekki nauðsynlegt að kæra komi fram í máli til að mögulegt sé að bregðast við. Til að mynda sé hægt að senda inn fagaðila á borð við sálfræðinga og beita öðrum úrræðum. „Við bregðumst alltaf við og við tökum á öllum málum. Við sendum alltaf inn óháðan fagaðila sem leiðbeinir félaginu með hvað sé hægt að gera. Við fáum lögfræðing til að meta hvort hægt sé að láta einhvern fara og stundum eru einstaklingar einnig beðnir um að hætta í félaginu eða samningar eru riftir.“

Segir Birta brot iðkanda gegn öðrum iðkanda erfiðari viðureignar en brot þjálfara gegn iðkanda, þar sem réttur íþróttafólks til að stunda íþrótt sína sé svo mikill. Þjálfarar eru hins vegar ráðnir starfsmenn sem hægt er að segja upp. Kveðst Birta því leggja mikla áherslu á að félög láti iðkendur, og þá sérstaklega í meistaraflokkum, skrifa undir siðareglur. 

„Við erum með sérstakar siðareglur um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Ef þú brýtur þær þá getum við vísað þér frá. Öll stóru félögin ættu að vera komin með þetta á hreint en ég veit ekki hver staðan er á landinu öllu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert