Ekki beint lífshætta en vegir gætu lokast

„Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur …
„Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur með þetta,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði. Ljósmynd/Almannavarnir

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að búast megi við að hlaupið úr Eystri-Skaftárkatli muni svipa til þess sem var fyrir þremur árum, síðsumars árið 2018.

„Það er svipað vatnsmagn í katlinum eins og var þá. Þá kom hámarkið og svo úr vestari katlinum ofan í. En hann er náttúrulega hlaupinn núna,“ segir hann en vestari ketillinn hljóp fyrir fimm dögum.

Svipi til þess sem var árið 2018

Hlaupið sem var árið 2015 er mörgum enn ferskt í minni en það þótti fremur stórt. Spurður hvort búast megi við einhverju í líkindi við það svarar Magnús því neitandi. „Það er minna vatn í katlinum þannig það er ekki við því að búast að það verði jafn stórt og þá. En þetta gæti verið líkt því sem var fyrir þremur árum.“

Skaftárhlaupið 2018.
Skaftárhlaupið 2018. mbl.is/JAX

Áhrifin meiri í stærri hlaupum

„Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur með þetta. Skaftárhlaup eru náttúrulega algeng og það hafa komið mörg Skaftárhlaup á síðustu 50 árum. Það er ekki beint lífshætta sem stafast af þessu en það geta lokast vegir,“ segir Magnús og bætir við að mikill aur geti dreifst um og fokið þegar vatnið þornar.

Í stærri hlaupum líkt og í Skeiðarárhlaupinu árið 1996 séu áhrifin þó meiri. „Flottoppurinn þar var 25 sinnum stærri,“ segir Magnús en þá flæddi vatn niður í Grímsvötn í fimm vikur sem leiddi til stórhlaups á Skeiðarársandi. Tjónið var gífurlegt, Skeiðarárbrúin skemmdist og var tjónið alls metið á um 1,5 milljarð króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert