Hlaup hafið í Eystri-Skaftárkatli

Skaftárhlaup.
Skaftárhlaup. mbl.is/RAX

Hlaup er hafið í Eystri-Skaftárkatli að því er kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að GPS-mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýni að íshellan þar sé farin að lækka.

Bendir það til að rennsli úr lóninu sé hafið. Mælingar sýna að íshellan byrjaði að lækka um klukkan 23 í gærkvöldi og hefur hún lækkað um tæpan einn metra frá þeim tíma.

Líklega ámóta stórt og 2018

„Búast má við að í heildina lækki íshellan um 60-100 metra. Þetta hlaup kemur í kjölfar hlaups úr vestari katlinum sem nú er í rénun.

Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018 og miðað við vatnsstöðuna í katlinum fyrir hlaup er líklegt að þetta hlaup verði ámóta stórt.

Hlaupið núna úr vestari katlinum hefur hækkað grunnvatnsstöðu og getur því hlaupvatnið úr eystri katlinum dreift sér meira um flóðasvæðið en 2018.

Við þetta bætist að talsverð úrkoma hefur einnig verið á svæðinu undanfarinn sólarhring,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar á Facebook.

mbl.is
Loka