Hlaupið nái þjóðveginum annað kvöld

Búist er við því að hlaupið nái niður að þjóðveginum …
Búist er við því að hlaupið nái niður að þjóðveginum í Eldhrauni annað kvöld. Mynd frá 2018. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Björn Oddson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að búast megi við að hlaupið úr Eystri-Skaftárkatli muni ná þjóðveginum sem liggur um Eldhraun annað kvöld. Líklegt er að hlaupið komi undan jöklinum í fyrramálið og þá tekur það um 10 klukkustundir að ná niður að þjóðveginum. 

Hættustig almannavarna var virkjað á hádegi í dag en þær aðgerðir snúast að mestu um að samhæfa aðgerðir allra viðbragðsaðila á svæðinu og sérfræðinga. Áður hafði verið lýst yfir viðbragðsstigi þegar hlaup hófst í vestari katlinum. Hlaup úr eystri katlinum eru alla jafna stærri en úr þeim vestari og því þarf að hafa meiri viðbúnað.

Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst árið 2018. Á vef Veðurstofu Íslands segir að miðað við vatnsstöðuna í katlinum sé líklegt að þetta hlaup verði ámóta stórt. 

Tími til að bregðast við

Björn segir fólk á svæðinu hafa tíma til að bregðast við. „Fólk hefur tíma í dag. Fólk sem býr og ferðast hvað mest um þetta svæði sem þekkir nákvæmlega hvar Skafárhlaupin hafa áhrif,“ segir Björn. Lögreglan á Suðurlandi stýrir aðgerðum á svæðinu og vaktar svæðið.

Samgöngurof getur orðið á svæðinu og hlaupið getur borið fram mikið af jarðvegi sem situr svo eftir. Framburðurinn getur farið yfir tún og haga og valdið sandfoki dagana á eftir. 

Landhelgisgæslan mun vakta svæðið úr lofti á næstu dögum. 

mbl.is