Missir ekki svefn yfir Skaftárhlaupi

Hættustigi almannavarna var lýst yfir í dag vegna Skaftárhlaupsins. Myndin …
Hættustigi almannavarna var lýst yfir í dag vegna Skaftárhlaupsins. Myndin er frá hlaupinu árið 2015. mbl.is/Sigurður Bogi

Pétur Davíð Sigurðsson, bóndi á Búlandi í austanverðri Skaftártungu, kveðst ekki missa svefn yfir hlaupinu úr Eystri Skaftárkatli. Tekur hann þessum atburðum af mikilli yfirvegun enda segir hann Skaftárhlaup nokkuð tíðan atburð.

„Þetta var kannski ekki alveg það sem vantaði ofan í hitt hlaupið en aðstæðurnar eru ósköp svipaðar og vanalega. Auðvitað er maður náttúrulega meðvitaður um að þetta geti valdið skemmdum en maður er svo sem ekkert hræddari um það núna en öll hin skiptin,“ segir Pétur í samtali við mbl.is.

Að sögn Péturs fóru bændur á svæðinu í dag að smala þá staði í dag þar sem búfé gæti lokast inni vegna hlaupsins. Getur þá einnig myndast mikil drulla þar sem vatnið fer yfir svo ófært er á þau svæði í einhvern tíma eftir hlaupin.

Verstu afleiðingarnar ef lömbin og rollurnar drepast

„Svo náttúrulega er alltaf þetta vandamál fyrir hendi eftir hlaupin að það situr eftir drulla þar sem vatnið lónar inn og þar eru rollurnar og lömbin að festa sig og sitja föst. Maður hefur alveg lent í því að þau hafi drepist í svona aðstæðum. Það eru verstu afleiðingarnar.“

Að sögn Péturs geta eftirmálar hlaupsins einnig varað lengi þó vatnið og drullan fari.

„Miðað við þessi hlaup sem hafa komið frá þessum eystri katli þá hafa þau verið frekar stór. Ef þetta yrði eitthvað í líkingu við síðustu hlaup þá geta þetta orðið heilmikil náttúruspjöll. Víða í sveitinni flæðir inn á tún og svoleiðis. En svo þegar drullan þornar þá situr hún eftir í jarðveginum og fýkur svo út um allt í verstu veðrunum. Ef það er þurrt og vindur þá sést oft ekki til sólar. Þetta verður bara eins og hálfgerð aska.“

mbl.is