Fylgi framboða í járnum

Sjálfstæðisflokkur er sem fyrr með langmest fylgi flokka, 24,9%, Framsóknarflokkur næststærstur með 13,3%, þá Samfylking með 12,1 og Vinstri græn með 10,8%. Aðrir flokkar eru allir með innan við 10% fylgi.

Graf/mbl.is

Ný skoðanakönnun sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is sýnir óverulegar breytingar á fylgi þeirra stjórnmálaflokka, sem kynnt hafa framboðslista í öllum kjördæmum. Enn sem fyrr er útlit fyrir að níu flokkar nái mönnum inn á þing í kosningunum, sem fram fara eftir tæpar þrjár vikur, hinn 25. september.

Meðal helstu strauma, sem greina má, er að Píratar halda áfram að tapa fylgi og eru komnir niður í 9,8%, sem er litlu meira en kjörfylgi þeirra 2017. Þá missir Viðreisn nokkuð fylgi frá fyrri könnun, en er enn töluvert ofan við kjörfylgið 2017.

Graf/mbl.is

Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Samfylking bæta ögn við sig, en Vinstri græn standa í stað.

Sósíalistar hljóta 8,1%, sem er minna en síðast og í takt við aðrar kannanir. Flokkur fólksins fer úr 5,1% í 4,5% og nær aðeins tveimur mönnum inn samkvæmt því.

Vegna þess hve margir flokkar eru í framboði og hve mjótt er á munum geta smávægilegustu fylgisbreytingar hins vegar haft töluverðar afleiðingar, bæði á fjölda þingmanna og í hvaða kjördæmum atkvæðin nýtast flokkunum.

Samkvæmt könnun MMR hreyfist fylgið sáralítið, en helst eru það Píratar og Viðreisn sem dala milli kannana. Aftur á móti sækja Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur lítillega í sig veðrið og hið sama má segja um Samfylkingu. Hins vegar hreyfast Vinstri græn varla í fylgi og miðað við þessa og aðrar kannanir virðist Sósíalistaflokkurinn vera að reka sig í
þak.

Hins vegar getur verið fróðlegt að taka saman tölur borgarlegu flokkanna (B, C, D og M) annars vegar og vinstriflokkanna (J, P, S og V) hins vegar. Þá kemur á daginn að fylgi borgaralegu flokkanna fer úr 3,1% í 53,2% milli kannana, en fylgi vinstriflokkanna úr 40,7% í 40,8%. Ekki gat það nú minna verið.

Út frá þessum niðurstöðum í einstökum kjördæmum má reikna út hverjir hreppa þingsæti ef miðað er við sömu kjörsókn í kjördæmunum og 2017. Vert er þó að undirstrika að sá útreikningur er ekki áreiðanlegur, að baki tölum flokka í einstökum kjördæma eru oft afar fá svör.

Miðað við þá nær Flokkur fólksins aðeins tveimur kjördæmakjörnum mönnum inn, Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins er úti og flokksleiðtogarnir Gunnar Smári Egilsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson merja það inn í jöfnunarsætum.

Eins og sjá má af gröfum um fylgisþróun hvers flokks fyrir sig hér að ofan er erfitt að greina eindregna hneigð hjá nokkrum flokki og velflestir raunar í grennd við miðgildi fylgis síns á þessu ári.

Athygli vekur að ríkisstjórnin nýtur nú stuðnings minnihluta svarenda eða 47,7% þeirra. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna nemur hins vegar 49%. Á kjörtímabilinu hefur fylgi þeirra oft verið innan við helmingur, en ríkisstjórnin oftast notið meirihlutastuðnings.

Könnunin var gerð dagana 31. ágúst til 3. september og var leitað álits 957 manna, en 818 tóku afstöðu til framboðanna, tæp 86%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert