Menning knattspyrnuheimsins ekki heillandi konum

Mist Rúnarsdóttir segir ástæðu liggja fyrir því að konur taki …
Mist Rúnarsdóttir segir ástæðu liggja fyrir því að konur taki ekki virkari þátt í störfum innan knattspyrnuheimsins. Samsett mynd

„Íþróttaheimurinn er karllægur og hefur alltaf verið það. Konur koma seinna inn og í staðinn fyrir að þær gangi inn í sama karllæga farið þá verða þær að fá tækifæri til að móta menninguna. Það hefur aldrei verið jafn gott tækifæri til þess að gera betur eins og nú,“ segir Mist Rúnarsdóttir, fyrrverandi knattspyrnuþjálfari og annar stofnandi Heimavallarins.

Að sögn Mistar getur verið krefjandi fyrir konur að taka þátt í starfsumhverfi knattspyrnuheimsins en út frá persónulegri reynslu finnst henni oft skorta að hlustað sé á konur eða þá einstaklinga sem tala fyrir máli kvenna.

„Maður spyr sig af hverju eru konur ekki að haldast í þjálfun. Það er líklega því að umhverfið og menningin er ekki nógu heillandi. Eins með lágt hlutfall kvenna í stjórnum, það er ekki af því að þær hafa ekki skoðanir eða áhuga, það gæti verið eitthvað sem er ekki heillandi við aðkomuna. Konur eru oft gagnrýndar fyrir það að láta sig hverfa þegar ferlinum lýkur en afhverju er það? Af hverju vilja þær ekki vinna fyrir félögin sín? Af hverju skila þær sér síður í störf fyrir félögin sín? Það þarf kannski að hugsa hvernig er komið fram við þær og hvernig er tekið á móti þeim.“

Vill að menningin sé skoðuð

Menning og umhverfi knattspyrnuheimsins hefur þó ekki eingöngu áhrif á konur heldur snertir þetta einnig karlmenn. Sem dæmi tekur Mist samkynhneigða karla, þeir finnast varla í fótbolta og þeir sem eru þar vilja helst ekki tjá sig um það. Segir Mist það vísa til þess að hlutirnir séu ekki í lagi og betur megi standa að jafnréttismálum.

„Ég vil sjá íþróttafélögin gera jafnréttismál að raunverulegum málum innan sinna raða. Ég vil að menningin sé skoðuð, við þurfum að fræða starfsfólk félaganna og helst jafna hlutfallið í stjórnum. Ekki bara kynjanna heldur fá fjölbreyttari hóp í stjórnum íþróttafélaga. Maður vill helst hafa það þannig til að allir eigi sér málsvara þegar horft er á stóru myndina.“

Miklar framfarir en starfið þarf að halda áfram

Að sögn Mistar hafa miklar framfarirnar verið undanfarin ár þó enn sé mikið starf óunnið. Segir hún að margar baráttur hafi unnist á síðustu árum, á borð við jafnan æfingatíma stúlkna og drengja og svipað menntunarstig þjálfara þeirra. Á sama tíma eru þó enn stór atriði sem ekki séu í lagi. Segir hún auðvelt fyrir þá sem eru lengi búnir að berjast fyrir jafnréttismálum innan knattspyrnuheimsins að verða samdauna umhverfinu og gleyma sér í litlu baráttunum. Á það þá jafnvel til að missa sjónar á heildarmyndinni.

„Svo fer manni að finnast eðlilegt að vinna endalaust að einhverjum ósjálfsögðum hlutum og maður tekur ekki eftir svona augljósum atriðum eins og að lengi vel var ekki búið að veita konum gullknöttinn (Ballon d‘Or) og meistaradeild kvenna var fyrst núna að verða riðlakeppni.“

Erfitt að benda á menningarlega þætti

Að sögn Mistar eru flest félög á landinu að gera góða hluti þegar kemur að jafnréttismálum sem auðvelt er að vekja athygli á. Hins vegar getur menningin og samskipti innan félaganna verið erfiðari viðureignar þar sem ekki er jafn auðvelt að benda á slík atriði.

„Það eru mjög góðir hlutir í gangi sem eru að gerast mjög víða og langflest fólk sem er að starfa fyrir íþróttafélögin eru að gera það af heilindum. Þetta er gott fólk en það er eitthvað að menningunni fyrst að stemningin er þannig að fólk segir að það sé erfitt að fá konur inn. Mér finnst það ekki eingöngu vera kvennanna mál. Ég veit ekki afhverju það er svona erfitt að brjóta aftur þessa karllægni. Þetta er oft þessi menning sem er erfitt að mæla og erfitt að sjá. Oft byggir þetta líka á ólíkri upplifun af samskiptum og annað. Þar verða oft árekstrar.“

Að endingu kveðst Mist ekki hafa neina töfralausn á því að breyta menningunni enda sé það hægara sagt en gert. Segir hún mikilvægt að halda samtalinu gangandi og vonar hún að þeir sem séu forsvari félagsliða, KSÍ og annarra sérsambanda verði meðvitaðri um að leita aðstoðar sérfræðinga og sérfræði aðila í innleiðingu jafnréttisáætlana og öðru er viðkemur heilbrigðara umhverfi í íþróttaheiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert