„Áin er ljót innfrá“

Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitastjóri Skaftárhrepps, flaug yfir Skaftárhlaup í dag.
Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitastjóri Skaftárhrepps, flaug yfir Skaftárhlaup í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við bíðum bara þess sem koma skal. Hér eru allir við öllu búnir en við vonum það besta,“ segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.

Þegar blaðamenn mbl.is hittu Söndru síðdegis í dag var hún nýkomin úr eftirlitsflugi yfir Skaftá. Flogið var í þyrlu Landhelgisgæslunnar meðfram ánni og inn að kötlunum í Vatnajökli. 

„Áin er náttúrlega ljót innfrá og kol-mórauð. Ég átti von á að það væri meira flæmi undir, að það væri meira vatn yfir öllu en það er samt auðvitað hellings vatn,“ sagði Sandra.

Hún segir að sólarhrings löggæsla veiti þægilega öryggistilfinningu fyrir fólkið á svæðinu. Því sé bara að bíða og vera viðbúin þegar hlaupið nær hámarki. Hins vegar þurfi að huga að fé á afrétti. Verið sé að smala fé í nágrenninu. „Þeir fóru nú af stað í morgun, það er gott skyggni og gengur vel þarna inn frá en það er ekki inni á þessu svæði þar sem hlaupið er núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert