Stöðvuðu þrjá með oxycontin í nærfötum sínum

Tollverðir á Keflavíkurflugvelli stöðvuðu þrjá erlenda karlmenn í ágústmánuði er …
Tollverðir á Keflavíkurflugvelli stöðvuðu þrjá erlenda karlmenn í ágústmánuði er þeir reyndu að smygla oxycontin-töflum til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tollverðir á Keflavíkurflugvelli stöðvuðu þrjá erlenda karlmenn í ágústmánuði er þeir reyndu að smygla oxycontin-töflum til landsins. 

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir að í lok mánaðarins hafi tveir menn smyglað 833 töflum í nærbuxum sínum til landsins frá Varsjá í Póllandi. Þeir voru handteknir og sættu skýrslutöku hjá lögreglunni.

Húsleit var gerð hjá karlmanni sem talinn var tengjast karlmönnunum tveimur og fundust þar meint fíkniefni og sterar. Að auki voru talsverðir fjármunir sem voru haldlagðir.

Fyrr í mánuðinum handtók lögreglan annan erlendan karlmann á Keflavíkurflugvelli en við líkamsleit á honum við komuna frá Gdansk í Póllandi fundu tollverðir 1.301 töflu af oxycontin sem hann hafði komið fyrir undir nærfatnaði sínum. Hann var færður á lögreglustöð til skýrslutöku.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005 til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Einnig er hægt að koma ábendingum á framfæri á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum.

mbl.is