Allt að sexfalt meiri kraftur en vanalega

Gunnar Sigurðsson sækir sýni úr Eldvatni
Gunnar Sigurðsson sækir sýni úr Eldvatni mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rennslismælingar í Eldvatni benda til þess að rennsli sé allt að fimm til sexfalt meira en vanalega á þessum árstíma, að sögn Gunnars Sigurðssonar og Bergs Einarssonar, vatnamælingamanna frá Veðurstofu Íslands. 

Blaðamaður mbl.is náði tali af þeim þar sem þeir voru að taka aurburðarsýni og rennslismæla ánna í morgun.

Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður hjá Veðurstofu Íslands, með aurburðarsýni úr Eldvatni.
Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður hjá Veðurstofu Íslands, með aurburðarsýni úr Eldvatni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við komum hérna seint í gær og mældum rennslið þá og erum að fara að gera það aftur. Það sem við mældum var eitthvað í kringum 650 rúmmetrar á sekúndu. Það er alveg hellingur en alveg töluvert minna en var í síðasta hlaupi. Samkvæmt útreikningum ætti rennslið að vera núna í kringum 600 rúmmetra og það á að vera í hámarki. [...] Meðal rennsli á ánni á þessum árstíma er í kringum 100 til 150 rúmmetrar á sekúndu,“ sagði Gunnar.

Eins og stendur er vatnið úr ánni ekki enn komið upp á þjóðveg en að sögn Gunnars er viðbúið að vatnið muni dreifa meira úr sér um láglendið á næstu dögum þó talið sé að hlaupið hafi nú þegar náð hámarki.

Aurburðarsýnið var sótt í gamla mjólkurflösku.
Aurburðarsýnið var sótt í gamla mjólkurflösku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hérna í hrauninu er alveg fullt af vatni og þar fer ekkert að lækka strax. [...] Svo þegar vatnið rennur út á hraunið þá hægt og rólega þéttist það svo jökulvatnið rennur alltaf lengra og lengra eftir hrauninu með hverju hlaupinu sem kemur,“ sagði Gunnar.

Aurburðarsýni í mjólkurflöskum

Rétt áður en blaðamaður náði tali af Gunnari og Berg höfðu þeir sótt aurburðarsýni úr ánni í gamlar mjólkuflöskur sem þeir munu flytja á Veðurstofuna þar sem þeir vinna úr sýninu. 

Tekin við Eldvatn í morgun.
Tekin við Eldvatn í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum líka að taka sýni til að meta hversu mikið grugg er í vatninu og það er náttúrulega mjög gruggugt,“ sagði Gunnar.

Hvað mun þessi mæling geta sagt okkur?

„Hún segir framburðinn, segir hversu mikið áin er að flytja af landinu og út í sjó. Það er náttúrulega margfalt það sem hún flytur í þessum stórhlaupum, miðað við hvað hún er að flytja venjulega. Þetta er hluti af því sem er að valda bændum í svetinni vandræðum. Það er þetta grugg sem er að koma upp á túnin og er að blása yfir,“ sagði Bergur.

Gunnar Sigurðsson og Bergur Einarsson, vatnamælingamenn hjá Veðurstofu Íslands.
Gunnar Sigurðsson og Bergur Einarsson, vatnamælingamenn hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert