Fyrrverandi starfsmaður forseta lagði fram kæru

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Hjörtur

Fyrrverandi starfsmaður forsetaembættisins hefur kært til lögreglu kynferðislega áreitni af hálfu samstarfsmanns hjá embættinu.

Maðurinn, sem kýs nafnleynd, segir að fyrrverandi samstarfsmaður hans hafi hegðað sér með óviðeigandi hætti allt frá árinu 2015. Hann hafi brotið alvarlega af sér í starfsmannaferð til Parísar árið 2018, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Gerandinn, sem er karlmaður, fékk skriflega áminningu frá forsetaembættinu eftir Parísarferðina. Hann baðst afsökunar og var sendur í tímabundið leyfi. Kom það þolandanum í opna skjöldu að hann skyldi fá að snúa aftur til starfa.  

Hann telur sig ekki hafa fengið viðeigandi málsmeðferð innan forsetaembættisins. Í sumar sagði hann upp starfinu og leitaði til Stígamóta. Síðar kærði hann málið til lögreglu.

Sif Gunnarsdóttir forsetaritari segir að starfsmanninum hafi verið heimilað að snúa aftur til starfa að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þar með hafi málinu verið lokið hjá embættinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert