Auglýsa eftir forstjóra nýrrar opinberrar stofnunar

Ásmundur Einar Daðason. Félagsmálaráðuneytið leitar að framsæknum einstaklingi í embætti …
Ásmundur Einar Daðason. Félagsmálaráðuneytið leitar að framsæknum einstaklingi í embætti forstjóra Barna- og fjölskyldustofu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagsmálaráðuneytið hefur auglýst eftir umsækjendum í embætti forstjóra Barna- og fjölskyldustofu, nýrrar stofnunar sem er verið að stofna. Þetta kemur fram í atvinnuauglýsingu sem birt er í Morgunblaðinu í dag.

Barna- og fjölskyldustofa er ein af þremur nýju stofnununum sem mun taka við verkefnum Barnaverndarstofu þegar hún verður lögð niður. Stefnt er á að nýja stofnunin muni hefja starfsemi frá og með 1. janúar á næsta ári.

Í auglýsingunni kemur fram að „Barna- og fjölskyldustofu er ætlað að vinna að farsæld barna í samræmi við bestu þekkingu og reynslu hverju sinni. [...] Barna- og fjölskyldustofa mun jafnframt gegna lykilhlutverki við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og fara með tilgreind verkefni í þágu barna sem nánar er kveðið á um í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu."

Barna- og fjölskyldustofa er hluti af hinu stórfelldu kerfisbreytingum á velferðakerfi barna sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur staðið fyrir.

Fyrr í sumar samþykkti Alþingi fjögur frumvörp Ásmundar sem snúa að breytingum á samþættingu kerfa sem eiga að sporna gegn því að fjölskyldur þurfi að flakka á milli kerfa til að sækja þjónustu og úrræði.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um starfið á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert