Ekið á hjólreiðamann í Garðabæ

Ekið var á hjólreiðamann í Garðabæ í morgun og var hann í kjölfarið fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu.

Eftir hádegið var tilkynnt að reykur bærist frá blokk í Kópavogi. Í ljós kom að pottur hafði gleymst á helluborði og þurfti slökkvilið að reykræsta íbúðina.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þurfti í fjórum tilvikum að stöðva ökumenn sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja í dag. Þar á meðal þegar árekstur varð á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Engin slys urðu á fólk í árekstrinum. Ökumaður sem tekinn var undir áhrifum í Árbæ í morgun hefur ítrekað verið stöðvaður fyrir að aka þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökuréttindum.

Þá var brotist inn í bíl í miðbæ Reykjavíkur og ýmsum munum stolið um hádegisbilið. Að sögn lögreglu voru eftirlitsmyndavélar á staðnum sem gátu varpað ljósi á það hverjir voru að verki. Voru þeir handteknir skömmu síðar. Lögregla rannsakar málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert