Forsendur fyrir afléttingu takmarkana

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er farinn að huga að nýju minnisblaði sem hann reiknar með að skila til heilbrigðisráðherra á næstu dögum. Hann segir forsendur fyrir því að halda áfram að létta á takmörkunum vegna kórónuveirunnar.

Spurður hvort til greina komi að takmörkunum verði aflétt fyrir 17. september, þegar núverandi reglugerð rennur út, segir hann ráðherrans að ákveða það.

„Mér finnst forsendur fyrir því eins og staðan er núna að halda áfram á þessari braut sem verið höfum verið, eins og alltaf. Við höfum alltaf haldið áfram að aflétta á takmörkunum þegar við teljum að ástandið sé nokkuð gott og ég held að ástandið sé nokkuð gott,“ segir Þórólfur.

Óráð að fara of hratt í afléttingar

Hann nefnir að bólusetningar séu útbreiddar og staðan á Landspítalanum góð. Þess vegna séum við á góðri braut en ekki megi fara of geyst í hlutina.

„Það eru margir sem vilja fara ansi bratt og hratt í afléttingar en ég held að það væri óráð. Við höfum reynslu af því gera það og ég held að við eigum að passa okkur á því að fara ekki of hratt þannig að við förum að lenda í bakslagi sem krefst þess að við þurfum að bakka og auka takmarkanir aftur. Ég held að við þurfum að gera þetta skynsamlega eins og við höfum reynt að gera áður,“ greinir Þórólfur frá.

Svandís Svavarsdóttir fyrir utan Ráðherrabústaðinn.
Svandís Svavarsdóttir fyrir utan Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Unnur Karen

44 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og þar af voru 19 í sóttkví. Daginn áður voru smitin 37 og þau voru 26 daginn þar áður. Þórólfur segir sveiflur vera á milli daga og ekki sé hægt að búast við því að smitin sigli beina línu niður á við, niður í núll. Veiran sé orðin það útbreidd í samfélaginu að það muni ekki gerast nema með mjög hörðum aðgerðum, sem hann telur ekki forsendur fyrir, sérstaklega þegar staðan á spítalanum er að batna.

„Við erum að lifa með veirunni og reyna að halda henni það vel niðri að við förum ekki að fá aftur mikinn vanda og örtröð á spítalann. Það er það sem þetta gengur út á þannig að ég held að þetta sé í þokkalegu ástandi,“ segir hann.

Röð í sýnatöku við Suðurlandsbraut.
Röð í sýnatöku við Suðurlandsbraut. mbl Árni Sæberg

Spurður út í tölfræði á Covid.is um að átta börn undir eins árs séu í einangrun, segist hann ekki þekkja einstaka tilfelli og að tölfræðin breytist á milli daga.

Hann nefnir að fleiri börn hafi verið að greinast og að börn undir eins árs hafi verið að greinast í töluverðan tíma. Hann kveðst þó ekki hafa sérstakar áhyggjur af því og segir þetta viðbúið í ljósi þess að Delta-afbrigðið smitar börn meira en fyrri afbrigði. „Sem betur fer höfum við ekki verið að sjá nein alvarleg veikindi, mér er ekki kunnugt um það að neitt barn hafi verið lagt inn á spítalann. Við verðum bara að lifa með þessu,“ svarar sóttvarnalæknir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert