Hröð þensla við Öskju

Öskjuvatn árið 2014.
Öskjuvatn árið 2014. mbl.is/Árni Sæberg

Enn rís land við eldstöðina Öskju og hefur nú risið um 6,5 til 7 sentimetra síðan bera fór á því í byrjun ágúst. Miðja þenslunnar er við vesturjaðar Öskjuvatns nálægt Ólafsgígum.

„Þetta virðist vera hröð þensla,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga, í samtali við mbl.is. „Þetta er virk eldstöð en hún hefur verið kannski frekar róleg undanfarið. Þannig að það var tímaspursmál hvenær þetta færi í gang aftur.“

Landrisið sést glögglega á GPS-stöð sem staðsett er inni í öskjunni. Að auki nýtast gervitunglamyndir til að staðsetja betur miðjuna á landrisinu. Þær eru teknar á nokkurra daga fresti.

„Þannig getum við fylgst með færslum upp á sentimetra, með því að bera nýjustu myndirnar saman við fyrri myndir. Þær sýna sambærilegt ris á við GPS-stöðina.“

GPS-stöðin heppilega staðsett

Hann tekur fram að ekki verði vart við skjálftavirkni í kringum sjálft landrisið.

„Það eru skjálftar þarna núna en þó á svipuðum slóðum og við sjáum reglulega. Skjálftavirknin sem slík er því ekki beinlínis óvenjuleg. En hún getur alveg tengst landrisinu. Við erum samt ekki enn farin að sjá skjálftavirkni í kringum landrisið.“

Aðeins ein GPS-stöð er á svæðinu og er hún raunar tiltölulega nýkomin þangað að sögn Benedikts.

„Við erum búin að reyna að reka hana þarna í fjögur ár. Þetta er ansi erfiður staður. Þetta er inni í öskjunni þannig að það er ekkert símasamband. Við þurfum að senda merki upp á barminn á öskjunni og þaðan í bæinn. En það var heppni að við vorum búin að koma henni loksins í sæmilegan gang, eftir margar tilraunir, og þá byrjaði þetta merki bara.“

Er GPS-stöðin nálægt miðpunkti þenslunnar eins og hún kemur fram á gervitunglamyndum?

„Það vill þannig til að hún liggur nánast beint ofan á miðjunni. Það er mjög heppilegt.“

Askja í forgrunni og Vatnajökull í bakgrunni.
Askja í forgrunni og Vatnajökull í bakgrunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirleitt lengri aðdragandi

Ef þessi þensla endar með gosi, er þá ekki líklegra að það verði seinna heldur en fyrr?

„Jú, ég myndi halda það. Þegar maður sér eitthvað byrja í eldstöð þá er það nú oftast eitthvað sem tekur smá tíma til að vaxa og verða eitthvað meira.“

Benedikt tekur Eyjafjallajökul sem dæmi.

„Þar erum við að horfa á tveggja áratuga aðdraganda og það er kannski algengara. En stundum þá byrja hlutirnir og gerast bara mjög hratt. Við sjáum þó engin merki um það núna.“

Landið sigið frá árinu 1983

Síðast gaus Askja árið 1961. Landris mældist síðan við eldstöðina á árunum 1970-1972.

„Svo varð hlé á mælingum, bara vegna Kröfluelda. Þá var svo mikið að gera að menn komust ekki í þetta.“

Árið 1983 hófust mælingar að nýju og sýndu þær að landið var að síga.

„Og það hefur verið að síga síðan.“

Eða allt þar til nú. Þenslan hófst eins og áður sagði um mánaðamótin júlí-ágúst og má næstum segja að hún hafi byrjað um leið og ágústmánuður sjálfur.

„Háskólinn gerði þó netmælingar þarna rétt áður og við eigum aðeins eftir að skoða betur hvort við séum að sjá byrjun á þessu risi þar. Það gæti verið. Við munum skoða þetta á næstu vikum og meta hvort við viljum gera eitthvað meira þarna og vakta svæðið betur. Við þurfum bara að átta okkur á því hvernig er skynsamlegast að fylgjast með framhaldinu á þessu,“ segir hann.

„Þetta er alla vega í gangi. Og virðist ekki ætla að hætta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »