Meistararnir í ruslinu

Í sorpgeymslunni. Bjarni Sveinsson með myndir uppi um alla veggi.
Í sorpgeymslunni. Bjarni Sveinsson með myndir uppi um alla veggi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar sorprennan fylltist hvað eftir annað uppi á 12. og efstu hæð í blokkinni, þar sem Bjarni Sveinsson býr í Kópavogi, tók hann til sina ráða og síðan hefur ruslið ratað rétta leið án hindrana.

„Drengurinn sem var fenginn til þess að sjá um þetta kom nánast bara þegar frí var í skólanum, en ef vel á að vera þarf að huga að sorpinu daglega,“ segir Bjarni, sem verður níræður á næsta ári. „Ég bjóst við að þurfa að sinna þessu í um viku en nú eru liðin yfir 20 ár og ég get því kallað mig sorptækni.“

Bjarni hefur orðið margs vísari í sorpgeymslunni. Hann segir að flokkunin eigi það til að vefjast fyrir sumum og oft þurfi hann að færa ýmislegt á milli tunna. Eins sé með ólíkindum hverju fólk hendi. „Ég sé oft óopnaða matarpakka með verðmiðunum á og á dögunum, þegar ég var að taka til í bláa gámnum, sá ég til dæmis ónotað eldhúshnífasett á statífi. Látum vera að fólk vilji losa sig við ýmislegt en hnífasett er ekki mjög heppilegt í bláa gáminn.“

Plássið vel nýtt

Haft hefur verið á orði að sorpgeymslan í blokkinni sé ekki venjuleg sorpgeymsla heldur líkari sýningarsal enda veggirnir þaktir myndum af listaverkum eftir þekkta listmálara eins og Leonardo da Vinci og Picasso.

Badda-Bistró. Bjarni ber stundum fram soðningu fyrir vini í gámnum.
Badda-Bistró. Bjarni ber stundum fram soðningu fyrir vini í gámnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fólk hefur fleygt þessum myndum og í stað þess að láta þær fara lengra valdi ég nokkrar á veggina með þeim árangri að veggplássið er búið.“ Hann bætir við að margir hafi undrast tiltektina, en hafa beri í huga að ekkert starf sé svo lítilsvert að ekki sé ástæða til þess að sinna því ágætlega. „Ég ólst upp þar sem var lítið að lesa, aðallega bíblíusögurnar, og þar stóð „yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig“. Ég hef beðið eftir þessum búhnykk í 89 ár og bíð enn.“

Þegar veður leyfir frá apríl og fram í september fer Bjarni út á trillu sinni og veiðir í soðið fyrir sig og eiginkonuna, Sigríði Ásgrímsdóttur. Á veturna geymir hann trilluna í 20 feta gámi en á vertíðinni býður hann félögum stundum í siginn fisk í gámnum, sem hefur því verið nefndur Badda-Bistró. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert