Sjóvá kvennahlaupið fer fram á laugardaginn

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram næsta laugardag.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram næsta laugardag. Ljósmynd/Kvennahlaupið

Sjóvá kvennahlaup ÍSÍ mun fara fram í 32. sinn á laugardaginn, 11. september, á hátt í 70 stöðum víða um landið. Skipuleggjendur hlaupsins hvetja alla til að taka þátt, óháð aldri, þjóðerni eða kyni.

Þetta kemur fram í tilkynningu Íþrótta- og ólympíusamband Íslands.

Fyrsta hlaupið fór fram árið 1990 og var þá markmiðið að hvetja konur til hreyfingar. Í dag er þó áherslan ekki síður á samveru og samstöðu kvenna í hlaupinu en konur á öllum aldri taka þátt, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Engin tímataka verður til staðar en með þeim hætti vilja skipuleggjendur stuðla að því að hver taki þátt á sínum eigin forsendum. Geta þátttakendur einnig valið vegalengd og hvort þeir gangi eða hlaupi hana.

Fjölmennustu hlaupin fara fram í Garðabæ og Mosfellsbæ en vegna sóttvarnaráðstafana verður svæðunum hólfaskipt í samræmi við gildandi leiðbeiningar fyrir íþróttamannvirki.

Umhverfisvænni sjónarmið í ár

Bolur kvennahlaupsins í ár er úr 100% bómull og fylgir framleiðsluferlið stöðlum Global Organic Textile Standard (GOTS) og verður upplagið minna en það hefur verið árin áður. Geta þátttakendur valið hvort þeir festi kaup á bol eður ei en samkvæmt tilkynningunni er þetta fyrst og fremst gert með tilliti til umhverfissjónarmiða.

Nánari upplýsingar um hlaupið er hægt að nálgast á heimasíðu Kvennahlaupsins en miða er hægt að kaupa á Tix.is.

Bolur kvennahlaupsins verður í takmarkaðra upplagi en áður.
Bolur kvennahlaupsins verður í takmarkaðra upplagi en áður. Ljósmynd/Kvennahlaupið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert