Býst við afléttingum í næstu viku

Svandís telur skynsamlegt að fara að ráðum Þórólfs.
Svandís telur skynsamlegt að fara að ráðum Þórólfs. mbl.is/Unnur Karen

Svandís Svarvardóttir heilbrigðisráðherra býst við því að núgildandi samkomutakmörkunum verði aflétt í næstu viku. Hún tekur undir með Þórólfi að það sé skynsamlegt að fara hægt í afléttingar.

„Við höfum lært af reynslunni, það sem gerðist þarna um mánaðamótin júní-júlí, þá afléttum við öllu og töldum að það væri óhætt. Það reyndist hafa verið of bratt farið þá og það skiptir miklu máli að við förum varlega í sakirnar.“

„Ég heyri það sem Þórólfur segir í þessum efnum og ég held að það sé bara skynsamlegt að fara að hans ráðum. Það væri óheppilegt ef við lendum aftur í stórri bylgju. Ég held að næstu skref verða varfærin en til afléttinga,“ segir Svandís.

Telur kosningabaráttuna ekki hafa áhrif

Svandís segir að enn ríki samstaða innan ríkisstjórnarinnar varðandi samkomutakmarkanir. „Það er eins og það hefur verið, við höfum alltaf farið yfir málin og rætt röksemdirnar. En við höfum gengið út af ríkisstjórnarfundum, sammála um niðurstöðurnar.“

Aðspurð því hvort kosningabaráttan muni hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda um afléttingu takmarkanna segist Svandís ekki telja að það hefði nein áhrif.

Hraðpróf, kafli í baráttunni

Heilsugæslan byrjar í dag að bjóða fólki það að fara í hraðpróf sem gilda fyrir stærri viðburði. Svandís segist ekki vita hve lengi þessi leið verður notuð. Hún telur erfitt sé að gera áætlanir í þessum efnum þar sem óvissan er svo mikil.

„Ég mun alltaf líta á þetta sem einhverskonar tímabil, kafla í baráttunni við veiruna. Við vitum ekki hversu mikið þetta verður notað og hversu lengi. Við erum allavega tilbúin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert