„Þetta er mjög mikill fjöldi“

Alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga er í dag.
Alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga er í dag. mbl.is/Golli

Í dag er alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga og í tilefni þess eru landsmenn hvattir til þess að kveikja á kertum klukkan átta í kvöld og stilla út í glugga, til minnis um þá sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

Þar að auki verða samverustundir víða um land í dag, meðal annars í Dómkirkjunni klukkan sex, þar sem fólki er frjálst að koma saman og minnast þeirra sem farnir eru. 

Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna, segir að samtökin taki um 320 einstaklingsviðtöl að jafnaði í hverjum mánuði, öll í húsakynnum Píeta á Baldursgötu.

Öllum þeim sem eru í sjálfsvígshugleiðingum er frjálst að hringja í Píeta-samtökin, sömuleiðis þeim sem eiga um sárt að binda vegna sjálfsvígs ástvinar. 

„Þetta er mjög mikill fjöldi,“ segir Kristín við mbl.is.

Álagið er svipað og það var í fyrra og vonar Kristín að það aukist ekki, enda segir hún skýrt að fólki, sem starfar á þessum vettvangi, finnist álagið heldur mikið. 

Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna.
Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna. Ljósmynd/Píeta-samtökin

Brýnast að tryggja fjármagn

Spurð að því, hvað sé brýnast að gera í málaflokknum og hvað ný ríkisstjórn geti gert til þess að styðja við forvarnarstarf um sjálfsvíg, segir Kristín að verði að tryggja fjármögnun. 

„Það þarf náttúrulega að tryggja ákveðna samninga við ríkið þegar kemur að rekstri samtaka eins og Píeta, vegna þess að við vitum að við erum að bjarga mannslífum. Svo þarf að koma á heildstæðara ferli og betra aðgengi til þess að fólk geti sótt sér aðstoð.“

Kristín segir að umræða um andlega heilsu hafi aukist undanfarin ár. Það þýði að fleiri átti sig á því að þeir þurfi e.t.v. hjálp og viti hvert sé hægt að leita. Nefnir Kristín í því sambandi Píeta-samtökin, hjálparsíma Rauða krossins og Sorgarmiðstöðina.

Jafnframt segir hún að trú slíkra samtaka sé að ekki sé hægt að bíða með þá þjónustu sem verið er að veita. 

„Fólk sem er að glíma við sjálfsvígshugsanir þarf hjálp núna. Við trúum ekki á biðlista.“

Haldin verður samverustund í Dómkirkjunni klukkan 18 í dag, til …
Haldin verður samverustund í Dómkirkjunni klukkan 18 í dag, til minningar um þá sem fallið hafa fyrir eigin hendi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gengur vel þrátt fyrir álag

Kristín segir að þrátt fyrir áðurnefnt álag á samtökum eins og Píeta-samtökin, gangi þó vel að aðstoða fólk. Leitast sé við að veita fjölbreytta þjónustu sem þannig sé til þess fallin að hjálpa ólíku fólki með ólíkar þarfir. 

„Okkur gengur mjög vel og við bregðumst alltaf við þörfinni. Við höfum reynt að fá fleiri verktaka inn í fagteymið okkar og höfum vandað okkur við að setja saman þverfaglegt teymi; við erum með sem sagt lækni, sálfræðinga, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og fíkniráðgjafa. Við reynum að fá fólk sem fyrst hingað í hús til okkar og erum að veita svona um 320 viðtöl á mánuði, sem sagt einstaklingsviðtöl.“

Ef ein­stak­ling­ar upplifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert