Andlát: Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Jón Sigurðsson, fyrrum seðlabankastjóri, formaður Framsóknarflokksins og ráðherra er látinn. Hann var 75 ára gamall þegar hann lést. 

RÚV greinir frá þessu. Jón greindi frá því í myndinni Karlameini sem sýnd var í mars á síðasta ári að hann hefði greinst með langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli.

Jón var fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi 23. ágúst árið 1946. Foreldrar hans voru Sigurður Ellert Ólason hæstaréttarlögmaður og ríkislögmaður og Unnur Kolbeinsdóttir, kennari og bókavörður.

Jón stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík en hann lauk þar stúdentspófi árið 1966. Þaðan lá leiðin í íslensku og sagnfræði í Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist með BA-gráðu í þeim fögum þremur árum síðar. 

Jón tók við starfi ritstjóra Tímans árið 1978 og sinnti því til ársins 1981. Að því loknu varð hann skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst og síðar varð hann rektor skólans til ársins 1991. 

Árið 1988 útskrifaðist Jón með meistaragráðu í menntunarfræðum og kennslustjórnun frá Columbia Pacific University í San Rafael í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu í sömu greinum tveimur árum síðar. Árið 1993 útskrifaðist hann svo úr MBA námi í rekstrarhagfræði og stjórnun frá National University í San Diego í Bandaríkjunum. 

Frá árinu 2003 til ársins 2006 var Jón seðlabankastjóri. Að því loknu tók hann við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ársins 2007. Þá var hann einnig formaður Framsóknarflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert