„Stórt áfall á mörgum sviðum“

Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé.
Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er mjög mikið högg. Fólk er fljótt að bregðast við ef það eru skepnur sem sýna einkenni riðu, þetta er ekki eitthvað sem er búið að malla hjá fólki,“ seg­ir Guðfinna Harpa Árna­dótt­ir, formaður Lands­sam­taka sauðfjár­bænda, í sam­tali við mbl.is en riðuveiki greindist á Syðra-Skörðugili í Skagaf­irði í gær.

Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé. Sjúkdómurinn veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. 

„Riðan kemur fyrst fram á þessu svæði í Skagafirði þegar hún kemur til landsins og það hefur reynst erfitt að uppræta hana á þessu svæði,“ segir Guðfinna.

Guðfinna Harpa Árna­dótt­ir, formaður Lands­sam­taka sauðfjár­bænda.
Guðfinna Harpa Árna­dótt­ir, formaður Lands­sam­taka sauðfjár­bænda. mbl.is/Kristinn Magnússon

1.500 fjár sem þarf að lóga

„Þetta er mikið áfall fyrir þessa bændur sem þarna umræðir og í raun allt samfélagið að fá þessar greiningu inn á svæðið. Þetta er stórt bú,“ segir Guðfinna en um 1.500 fjár eru á bæn­um, full­orðið fé og lömb.

„Eins og reglugerðirnar eru núna þá þarf að lóga öllu fénu.“ 

Spurð hvort að breytingar á þeim reglum séu til skoðunar segist Guðfinna eiga síður von á því.

Hún nefnir þó starfshóp atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá MAST, leiðir og vinnur að tillögum varðandi málið. Þá eru einnig í gangi verkefni varðandi arfgerðargreiningar. 

„Kannski verður það einhver þáttur í að berjast við riðuna.“ Guðfinna segir einnig að miklum árangri hafi verið náð með því að skera niður sauðfé.

Efnahagslegt og tilfinningalegt tjón

Hvernig er komið til móts við bændurna sem lenda í þessu?

„Af því það er lögbundið að skera niður þessa gripi er komið til móts við bændurna með bótum,“ segir Guðfinna en um er að ræða afurðabætur, bætur fyrir þá gripi sem eru felldir og kostnaður við hreinsun.

„Það er hluti af því starfi sem starfshópur Sigurborgar vinnur að, að meta hvort að tjónið sé nægjanlega vel bætt. Það er nauðsynlegt að bæta gildandi verkferla, hvernig er haldið utan um bændurna sem lenda í þessu.“

Guðfinna segir að tjónið sé efnahagslegt en einnig tilfinningalegt. „Fólk tengist dýrunum sínum sterkum böndum, bæði börn og fullorðnir á þeim bæjum sem umræðir. Þetta er stórt áfall á mörgum sviðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert