Telur drög Svandísar varhugaverð

Sveinn segir það ekki mannréttindi að gefa blóð.
Sveinn segir það ekki mannréttindi að gefa blóð. mbl.is/Hari

Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, kveðst telja drög Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, að breytingum á reglugerðum um blóðgjöf, varhugaverð.

Breytingarnar fela meðal annars í sér að ekki megi lengur mismuna blóðgjöfum á grundvelli kynhneigðar.

Í samtali við mbl.is segist Sveinn vonast eftir því að ráðuneytið taki mið af tillögum Blóðbankans, Landspítalans og ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, við vinnslu þessara mála.

Kveðið á um áhættusamt kynlíf

Í dag mega karlmenn sem stundað hafa kynlíf með öðrum karlmönnum, eða svokallaður MSM-hópur (e. Men who have sex with other men), ekki gefa blóð í Blóðbankann. Drög heilbrigðisráðherrans gætu þó haft áhrif á það.

Í tilkynningu heilbrigðisráðherra sem birtist á fimmtudag á vef stjórnarráðsins segir: „Breytingin felur jafnframt í sér að kynhegðun veldur ekki lengur varanlegri frávísun blóðgjafar. Í staðinn er kveðið á um að blóðgjafi megi ekki hafa stundað áhættusamt kynlíf í fjóra mánuði fyrir blóðgjöf. Lögð er til skilgreining á því hvað telst vera áhættusamt kynlíf en í því felst að það sé kynlíf sem eykur verulega líkur á að alvarlegir smitsjúkdómar berist með blóði.“

Sveinn segist telja tillögu Svandísar vera „einhvers konar óðagot“ sem geti „skapað óvissu og áhættu í heilbrigðisþjónustu“.

Segir hann mikilvægt að breytingar séu innleiddar með faglegum hætti sem tryggi öryggi í hvívetna, með svipuðum hætti og önnur lönd hafi gert. Enda eigi Ísland ekki að vera eftirbátur annarra landa hvað varðar öryggi í blóðbankaþjónustu.

Sveinn segir það mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld ráðist í áhættugreiningu.
Sveinn segir það mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld ráðist í áhættugreiningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa viljað leita lausna

Að sögn Sveins hefur Blóðbankinn endurtekið mælst til þess við ráðuneytið að leitað verði lausna á því hvernig hægt sé að rýmka fyrir það að MSM-hópurinn fái að gefa blóð.

Erlendis hafa einstaklingar úr þessum hópi í vaxandi mæli fengið að gefa blóð, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hægt væri að grípa til álíka aðgerða hérlendis að því gefnu að fjármagn og vinna verði lögð í verkið.

Til að byrja með telur hann nauðsynlegt að Ísland taki upp nákvæmari blóðskimunaraðferðir.

„Núverandi skimunaraðgerðir eru öruggar en ekki 100% öruggar. Því hefur það verið þannig í allflestum löndum Evrópu og víða um heim, að NAT-skimunaraðferðin er búin að vera gullstandardinn í blóðskimun síðustu 20 árin og heilbrigðisyfirvöld hafa haft það í hendi sér allan þann tíma að gera þessi próf að skilyrði,“ segir Sveinn.

„Þessi NAT-skimun er löngu tímabær og var tekin til notkunar í löndunum í kringum okkur á síðustu tíu til tuttugu árum. Frá því að við skiluðum tillögum okkar árið 2018 er búið að afgreiða þrenn fjárlög og engum fjármunum verið varið til þess að koma á stofn NAT-skimun.

Sömuleiðis engar fjárveitingar til þess að hefja þessa áhættugreiningu, sem að þarfnast auðvitað samstarfs margra aðila, sóttvarnalæknis, lýðheilsufræðinga, blóðbankalækna, smitsjúkdómalækna og margra annarra.“

Áhættan margföld

Auk NAT-skimunaraðferðarinnar telur Sveinn einnig mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld leggi af stað í áhættugreiningu á ferlinu sem felst í því að rýmka fyrir blóðgjöf MSM-hópsins.

„Þetta helgast af því að MSM-hópurinn er sérstaklega útsettur fyrir HIV og sýfilis, það er vel þekkt um allan heim og áhætta þessa hóps hefur í mörgum löndum verið metin allt frá 60 upp í 300-föld miðað við almennt þýði.

Á Íslandi er það þannig að MSM-hópurinn, sem er áætlað að sé allt að 1,5% þjóðarinnar, sé með jafn mörg tilfelli af HIV og hin 98,5%. Þannig að á íslandi má slá á að það sé allt að 70-föld áhætta. Þetta eru náttúrulega þættir sem ætti að vera hægt að lesa úr samantekt heilbrigðisyfirvalda en það skortir talsvert á það að íslensk heilbrigðisyfirvöld og sóttvarnayfirvöld séu með gott yfirlit fyrir almenning og áhættuhópa að kynna sér.“

Að sögn Sveins bæri MSM-hópurinn mikinn hag af því að lagt yrði af stað í slíka áhættugreiningu þar sem þetta myndi einnig skila sér í meiri stuðningi til þeirra

„Víða um heim hefur þetta verið kortlagt með það fyrir augum að veita meiri stuðning við MSM-hópinn. Þetta er bara sameiginlegt verkefni sóttvarnayfirvalda, smitsjúkdómalækna og fjölmargra annarra. [...] Áhættugreining myndi bæta yfirsýn og auka upplýsingar til almennings en jafnframt opna leiðina fyrir því að vera með þetta úrræði, bæði fyrir þennan hóp og þjóðfélagið í heild sinni.“

Mannréttindi að þiggja öruggt blóð

Sveinn vekur athygli á að Blóðbankinn hafi ítrekað „kröftuglega“ beiðni um áhættugreiningu árið 2013 þegar ráðherranefnd Evrópuráðsins í Strassborg gáfu út tilmæli til heilbrigðisyfirvalda í öllum Evrópulöndum að þau skyldu eingöngu geta breytt reglum sínum, hvað varðar frávísun MSM-hóps til blóðgjafar, að því gefnu að áhættugreining yrði gerð.

Árin 2018 og 2019 var þetta enn og aftur ítrekað af Blóðbankanum og ráðgjafanefndinni um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, en ekkert gerðist.

„Það verður að vinna hlutina vandvirknislega og gera áhættumat. Heilbrigðisyfirvöld bera ríka ábyrgð á því að hvaðeina sem þau gera sé gert til að tryggja öryggi sjúklinga, öryggi þegnanna, öryggi MSM-hópsins sem er mikið útsettur í þjóðfélaginu. Þetta væri greiði við alla aðila að standa vel að þessu áhættumati og gera þetta vel.“

Að lokum segir Sveinn það ekki mannréttindi að gefa blóð. Hins vegar séu það mannréttindi að þiggja öruggt blóð og að blóðbankar og heilbrigðisyfirvöld geri hvaðeina til að tryggja öryggi.

„Það er auðvitað það sem við viljum vinna að í Blóðbankanum, í góðri sátt við þá sem hafa tilfinningalega aðkomu að þessu máli, og við berum mikla virðingu fyrir þeim þætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina