Úrbætur vegna fjölgunar leiðangursskipa

Reykjavíkurhöfn. Leiðangursskipið Crystal Endeavor liggur við Miðbakkann og bíður eftir …
Reykjavíkurhöfn. Leiðangursskipið Crystal Endeavor liggur við Miðbakkann og bíður eftir nýjum hópi farþega. mbl.is/sisi

Mikil fjölgun hefur orðið í sumar á hringferðum svokallaðra leiðangursskipa við Ísland og á næsta ári stefnir í enn meiri fjölgun. Þessi skip hafa langflest bækistöð í Reykjavík. Farþegarnir koma hingað með flugi og skipin sigla hringinn í kringum landið með viðkomu á nokkrum stöðum. Fjölgun leiðangursskipa kallar á bætta aðstöðu til móttöku og innritunar farþega í Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk hjá Ernu Kristjánsdóttur, markaðsstjóra Faxaflóahafna, hafa verið 58 skipakomur og 32.067 farþegar það sem af er sumri. Enn eru bókaðar 12 skipakomur til viðbótar út nóvember, þ.e. 11 eru í september og ein í nóvember. Nánast allir farþegar komu með flugi í gegnum Keflavíkurflugvöll. Í aðeins tveimur tilfellum komu skip sjóleiðina með farþega. Farþegarnir fóru í gegnum sama sóttvarnarferli og aðrir ferðamenn sem koma til Keflavíkur með flugi.

Alls er bókuð 181 skipakoma með 210.432 farþega árið 2022. Þetta byggist á væntingum skipafélaganna en eru ekki rauntölur. „Margt getur gerst fram að þessum tíma eins og við höfum orðið vitni að síðustu tvö árin,“ segir Erna. Af þessum skipakomum er áætlað að 98 verði með farþegaskipti og farþegatalan er 51.022. Þetta er þreföldun leiðangursskipa frá árinu 2019, ef allt gengur eftir.

Fjölgun leiðangursskipa kallar á breyttar þarfir fyrir afgreiðslu farþega og farangurs og á síðasta fundi stjórnar Faxaflóahafna kynnti Magnús Þór Ásmundsson hafnarstjóri hugmyndir um uppbyggingu aðstöðu. Var hafnarstjóra falið að mynda starfshóp sem greina mun þarfir og gera tillögur.

„Við gerum ráð fyrir að þurfa að anna skipum með allt að 3.000 farþegum með þessum hætti,“ segir Magnús. Til að sinna því skv. stöðlum og öryggiskröfum sem gerðar eru kallar það á aðstöðu til að meðhöndla farangur, svo sem skönnun á farangri, geymslu og flutning. Einnig þarf að vera aðstaða til að skanna farþegana sjálfa, s.s. með málmleitartækjum. Í farvatninu eru síðan auknar kröfur um landamæraeftirlit sem aðstaða þarf að vera til að sinna, bæði með sjálfvirkum og handvirkum hætti. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 11. september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »